Drykkjarvörufélögin Coca-Cola Enterprises, Coca-Cola Iberiian Partners og Coca-Cola Erfischungsgetranke AG kynntu í dag rekstrarsamruna félaganna tveggja undir nafninu Coca-Cola European Partners Plc. Félagið verður stærsti einstaki átöppunaraðili heims á drykkjarvörum Coca-Cola fyrirtækisins miðað við heildartekjur. Vífilfell, átöppunaraðili Coca-Cola drykkja á Íslandi, verður hluti af nýja félaginu í gegnum spænsk-ættaða félagið Coca-Cola Iberian Partners Group.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vífilfelli í dag, þar sem fjallað er um samruna félaganna þriggja í Evrópu. „Vífilfell mun, sem hluti af stærsta sjálfstæða Coca-Cola átöppunaraðila heims, hafa aðgang að meiri þekkingu og reynslu í framleiðslu drykkjavara en það hefur nokkurn tíma áður haft í sögu sinni, en fyrirtækið rekur sögu sína hér á landi aftur til ársins 1942. Aukin áhersla verður á fjárfestingar hér á landi, breytilegar þarfir neytenda og vöxt og viðgang fyrirtækisins,“ segir í tilkynningu.
Coca-Cola Iberian Partners er átöppunarfyrirtæki The Coca-Cola Company á Spáni, Portúgal og Andorra. Félagið eignaðist Vífilfell í byrjun árs 2011 en áður hafði félagið að mestu verið í eigu Þorsteins M. Jónssonar.
Coca-Cola Enterprises Inc. (CCE) er eitt stærsta, sjálfstæða átöppunarfyrirtæki Coca-Cola í Vestur-Evrópu. Félagið CCE á einkarétt á átöppun vara the Coca-Cola Company í Belgíu, Frakklandi, Bretlandi, Lúxemborg, Mónakó, Hollandi, Noregi og Svíþjóð. CCE rekur 17 verksmiðjur víðsvegar um Evrópu þar sem það framleiðir tæp 90% af vörunum á þeim mörkuðum þar sem þeirra er neytt.
Coca-Cola Erfrischungsgetränke AG (CCEAG) er stærsta fyrirtæki á sviði drykkja í Þýskalandi en það seldi um 3,8 milljarða lítra árið 2014. Stjórn Coca-Cola Enterprises, Coca-Cola Iberian Partners og The Coca-Cola Company hafa samþykkt sameininguna. Fyrirhugaður samruni er háður samþykki hluthafa CCE, samþykki eftirlitsaðila og öðrum venjubundnum skilyrðum. Búist er við að samruninn gangi í gegn á öðrum ársfjórðungi ársins 2016.