Í október 2021 taldist 301 einstaklingur heimilislaus í Reykjavíkurborg, samkvæmt úttekt á stöðu heimilislausra sem framkvæmd var á velferðarsviði borgarinnar undir lok síðasta árs.
Þrjú prósent hópsins, fjórir karlar og fjórar konur, voru ekki með aðgang að húsnæði af einhverju tagi og höfðust við á víðavangi. Fimmtán karlar og sjö konur til viðbótar töldust í ótryggum húsnæðisaðstæðum.
Rúmur helmingur hópsins eða 54 prósent töldust í húsnæði sem skilgreint er fyrir heimilislausa á vegum Reykjavíkurborgar eða á áfanga eða þá í húsnæði með langtímastuðning. Tæpur þriðjungur hópsins, eða 31 prósent, var í neyðargistingu fyrir heimilislausa.
Fleiri karlar teljast heimilislausir en konur, en karlar eru 71 prósent heildarhópsins. Næstum 9 af hverjum 10 heimilislausum í Reykjavíkurborg eru með íslenskt ríkisfang og um 71 prósent hópsins er á aldrinum 21-49 ára.
Samanburður við úttektir fyrri ára örðugur
Ekki er útilokað að heimilislausir í höfuðborginni séu enn fleiri en úttektin segir til um, en einstaklingar sem eru heimilislausir en sækja hvergi þjónustu velferðarsviðs í málaflokki heimilislausra gætu fallið utan úttektarinnar.
Í skýrslu sem lögð var fram í borgarráði í gær segir þó að á síðasta ári hafi verið gerð breyting í skráningum á heimilislausum í þjónustu Reykjavíkurborgar, með miðlægri skráningu á vegum Vettvangs- og Ráðgjafateymi (VoR) í samvinnu við lögreglu, fangelsismálayfirvöld og heilbrigðisstofnanir.
Úttektir á stöðu heimilislausra hafa áður verið gerðar árin 2009, 2012 og 2017, en þá fóru þær fram með þeim hætti að kannanir voru sendar á þjónustumiðstöðvar borgarinnar, Rauða krossinn, Samhjálp, lögregluna, Fangelsismálastofnun og fleiri stofnanir og samtök í samfélaginu sem hafa beina snertingu við hópinn.
Nú er hins vegar komin miðlæg skráning, sem í skýrslu velferðarsviðs er sagt leiða til þess að sviðið hafi nú yfir mun betri og marktækari gögnum að ráða um hóp heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir en nokkru sinni fyrr. Þessu er lýst sem „byltingu“ í skýrslu velferðarsviðs.
Með þeim fyrirvara að ekki sé um samanburðarhæfar tölur að ræða hefur þó skráðum heimilislausum fækkað um 14 prósent frá árinu 2017.
Ef horft er lengra aftur hefur fjöldi skráðra heimilislausra þó aukist nokkuð – en árið 2009 var 121 einstaklingur skráður heimilislaus samkvæmt könnun velferðarsviðs borgarinnar.