Í kjölfar heimsfaraldurs COVID-19 beittu mörg ríki heims svokölluðum þjóðhagsvarúðartækjum til að minnka líkur á að heimsfaraldurinn hefði alvarlegar efnahagslegar afleiðingar. Kristín Arna Björgvinsdóttir hagfræðingur í Seðlabanka Íslands fjallar um þjóðhagsvarúðarstefnu og hlutverk hennar í að jafna sveiflur vegna heimsfaraldurs í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Efnahagsáfallið í kjölfar COVID-19-farsóttarinnar er það fyrsta sem á sér stað eftir að beiting þjóðhagsvarúðartækja varð útbreidd og var slakað á mörgum þeirra í fyrsta sinn, segir í greininni. Jafnframt segir Kristín Arna að þróunin nú, bæði hér og annars staðar, sé að herða tökin að nýju til að koma í veg fyrir bólumyndun, til að mynda á fasteigna- og hlutabréfamörkuðum. „Til að takmarka kerfisáhættu sem byggst hafi upp vegna aðstæðna á eignamörkuðum segir hún seðlabanka ýmissa ríkja hafa brugðist við með því að herða taumhald þjóðhagsvarúðarstefnu að nýju og að ekki sjái fyrir endann á þeirri vegferð.
„Þróun á fasteignamörkuðum er mikilvæg fyrir fjármálastöðugleika en fjármálaáföll sem rekja má til fasteignabóla og skuldaaukningar heimila eru almennt kostnaðarsamari, lengri og alvarlegri en áföll sem orsakast af öðrum þáttum. Því má færa rök fyrir því að þjóðhagslegur ávinningur af því að sporna gegn óhóflegum skuldavexti heimila, stuðla að stöðugum fasteignalánamarkaði og draga þannig úr sveiflum í húsnæðisverði sé töluverður,“ segir í greininni.
Lágvaxtaumhverfið ýtir eignaverði upp
„Þróunin á fasteignamarkaði hér á landi á síðustu mánuðum hefur á margan hátt verið keimlík þróuninni í okkar helstu nágrannlöndum. Markaðurinn hefur að undanförnu einkennst af hröðum verðhækkunum og mikilli veltu. Sögulega lágir vextir fasteignalána hér á landi ásamt takmörkuðu framboði eigna á sölu hefur leitt til þess að meðalsölutími hefur haldist nálægt sögulegu lágmarki á síðustu mánuðum og eignum í sölu hefur fækkað verulega.
Lágvaxtaumhverfið sem nær alls staðar hefur myndast ásamt skorti á vaxtaberandi fjárfestingakostum hefur kynt undir eignamörkuðum og leitt til þess að eignaverð bæði hér á landi og erlendis hefur hækkað mikið á síðustu mánuðum, sér í lagi á hlutabréfa- og fasteignamörkuðum.“
Kristín Arna segir sum lönd hafa sett þak á veðsetningarhlutfall fasteignalána á meðan önnur hafi gripið til þess að setja hámark á greiðslubyrðarhlutföll, líkt og gert var hér á landi með ákvörðun Fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands í lok september þegar sett var hámark á greiðslubyrðarhlutfall nýrra fasteignalána. Hámarkið er 35 prósent af ráðstöfunartekjum á almenna lántakendur en 40 prósent á fyrstu kaupendur.
Þessum úrræðum segir höfundur að sé almennt beitt ef talið er að ójafnvægi á fasteignamarkaði geti ógnað fjármálastöðugleika. Búast megi við að alþjóðlegt regluverk um beitingu þjóðhagsvarúðartækja verði endurskoðað á næstu árum með reynsluna af COVID-19 kreppunni í huga.