Hinar alþekktu og víðtækt samþykktu skýringar á þróun lífsins, það er þróunarkenning Darwins og kenningin um stóra hvell (big bang), eiga við rök að styðjast og fullgildar. Þessu hélt Francis páfi fram í ræðu í gær. Yfirlýsing sem þessi þykir sæta nokkrum tíðindum, ekki síst þar sem ýmsir æðstu prestar og leiðtogar kaþólsku kirkjunnar á heimsvísu hafa aldrei samþykkt þessar vísindalegu skýringar á mannlífinu. Texti trúarritanna er tekinn bókstaflega af mörgum þeirra og hélt Benedikt XVI páfi því staðfastlega fram að Guð hefði skapað heiminn á sex dögum, og samþykkti aldrei kenningar vísindanna, í það minnsta ekki opinberlega.
Francis páfi sagði að fólki hætti til að sjá Guð fyrir sér sem töframann með sprota en reyndin væri allt önnur. Guð hefði skapað manninn og leyft þróun hans að verða í samræmi við lögmál vísindanna.