Allir íslenskir starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, fyrir utan framkvæmdastjórann Engilbert Guðmundsson, mótmæla fyrirætlunum Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að leggja stofnunina niður og færa starfsemi hennar inn í ráðuneytið. Þetta kemur fram í umsögn starfsfólksins um frumvarp Gunnars Braga sem var send utanríkismálanefnd Alþingis í dag.
Engilbert skrifar svo aðra umsögn fyrir hönd stofnunarinnar sjálfrar, þar sem fram kemur að stofnunin telji „enn sem fyrr líklegra að tilvera fagstofnunar sé ákjósanlegasti skipulagskosturinn til að stuðla að slíkri uppbyggingu á faglegri getu.“ Þetta sé ekki síst í ljósi þess að stjórnvöld hafa talað um aukin framlög til þróunarsamvinnu á næstu árum, og því verði mikil þörf á því að auka umfang og dýpt fagþekkingar í þróunarsamvinnu.
Þá segist Þróunarsamvinnustofnun harma það að ekki skuli hafa tekist að ná faglegri og pólitískri samsötðu allra þeirra sem beri hag fátæks fólks í samstarfslöndum Íslands fyrir brjósti. Þá segir að í skýrslu sem meðal annars hefur verið lögð til grundvallar ákvörðun um að leggja niður stofnunina sé að finna villandi staðhæfingar sem sýni djúpstæðan misskilning á því hvað framkvæmd feli í sér í nútíma þróunarsamvinnu.
Staðhæfingarnar feli í sér að stofnunin vinni ekki í framkvæmd þróunarsamvinnu heldur fyrst og fremst í eftirliti. „Skýrslan leggur nokkuð að jöfnu gæðaeftirlit utanríkisráðuneytisins með alþjóðastofnunum sem Ísland styður og gæðaeftirlit ÞSSÍ með framgangi tiltekinna verkefna, en það virðist svipað og að leggja að jöfnu eftirlit eigenda með afkomu fyrirtækis og eftirlit tæknideildar með gæðum framleiðslunnar. Hvorttveggja er nauðsynlegt en mjög ólíkt. Þarna er á ferð misskilningur sem væntanlega hefði mátt útrýma með betri umfjöllun á fyrri stigum og þannig tryggja að ráðherra fengi sem bestan grunn til ákvarðanatöku.“
Í bréfi starfsfólksins kemur fram að það taki undir athugasemdir og andmæli sem komið hafi fram í umsögnum Þróunarsamvinnustofnunar sjálfrar. „Undirrituð telja þvert á móti að æskilegt væri að færa fleiri verkefni á sviði þróunarsamvinnu yfir til ÞSSÍ og efla málaflokkinn á þann hátt, enda eru fyrir því fjölmörg rök. Við leggjum því eindregið til að Alþingi standi við fyrirheit um aukin framlög til þróunarsamvinnu og styðji þá stofnun sem býr yfir mestum faglegum styrk á því sviði á Íslandi.“
Gunnar Bragi hefur lagt fram á nýjan leik frumvarp sitt sem miðar að því að leggja niður stofnunina og flytja starfsemi hennar inn í ráðuneytið. Gefið hefur verið út að allir starfsmenn fái áfram vinnu inni í ráðuneytinu.