Jón Steindór Valdimarsson þingmaður Viðreisnar segir að Samherjamálið hafi gefið almenningi innsýn í það hversu gegnsýrðir Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn séu af sérhagsmunagæslu. Vonast hann til að almenningur sé reiðubúinn að opna augun fyrir því og velji frekar stjórnmálaflokka sem hafi almannahagsmuni framar sérhagsmunum. „Það er mikið í húfi fyrir framtíð lands og lýðs.“
Þetta kom fram í máli þingmannsins undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
„Á lýðveldistímanum hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur að mestu haldið um stjórnartaumana. Yfirleitt saman, stundum í sitt hvoru lagi. Sú samfélagsgerð sem við búum við í dag er á ábyrgð þeirra. Auðvitað eru þær í þeirri sögu bjartar hliðar en því miður eru þær ansi margar myrkar,“ sagði hann.
Engin tilviljun að þessir flokkar vildu helst engu hagga
Þá sagði Jón Steindór að allir vissu sem vildu vita að ítök þessara flokka í grunnkerfum samfélagsins væru mikil og í gegnum lýðveldissöguna hefðu myndast sterk hagsmunatengsl á milli flokkanna og helstu hagsmunaaðila íslensks samfélags. „Þú klappar mér, ég klappa þér.“
Það væri engin tilviljun að þessir flokkar vildu helst engu hagga þegar kæmi að sjávarútvegs- og landbúnaðarkerfunum.
„Það er ekki vegna þeirra ríku almannahagsmuna sem þeir verja. Nei, það er vegna sérhagsmuna flokkanna sjálfra og fyrirtækjanna sem þeir þjóna. Og það er heldur engin tilviljun þegar umræða um krónuna og Evrópusambandið er opnuð þá fari þessir sömu flokkar á límingunum. Það er ekki vegna þeirra ríku almannahagsmuna sem fælust í auknum gengisstöðugleika fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Nei, það er vegna þess að þeir sem telja sig tapa eru vörslumenn sérhagsmuna sem flokkarnir verja,“ sagði þingmaðurinn.