„Ætlunin er að vekja á því athygli hve hættulegir og alvarlegir geðsjúkdómar geta verið, enda hafa allir meðlimir sveitarinnar kynnst því af eigin raun á einn eða annan hátt,“ segir Ágúst Örn Pálsson, gítarleikari og söngvari í þungarokkshljómsveitinni Röskun. Aðrir meðlimir eru Heiðar Brynjarsson trommuleikari, Magnús Hilmar Felixson bassaleikari og söngvari, og Þorlákur Lyngmo gítarleikari og söngvari.
Þeir félagar hafa allir kynnst alvarlegum hliðum þunglyndis og geðsýki, með einum eða öðrum hætti, og vilja með tónlistinni vekja athygli á því hvernig þunglyndi og geðsjúkdómar geta grafið undan lífi fólks.
Frá hjartanu
„Fyrir nokkru tókum við, nokkrir góðkunningjar þungarokks á Akureyri, okkur saman og stofnuðum enn eitt helvítis bandið. Við höfum allir verið í böndum áður, góðum og vondum, alvarlegum og kjánalegum, allskonar. Í þetta skiptið var ákveðið að tala frá hjartanu, taka enga stefnumótunarfundi heldur láta tónlistina fæðast og fá að vera eins og hún er. Þar að auki ákváðum við að syngja á íslensku um eitthvað sem skiptir okkur máli,“ segir Ágúst Örn.
https://www.youtube.com/watch?v=M5tSrLiWzAs
Röskun vinnur nú hörðum höndum að sínum fyrstu tónleikum og sinni fyrstu breiðskífu en fjögurra laga kynningarplata hefur litið dagsins ljós á Spotify, iTunes og öðrum helstu tónlistarveitum.
Óttaðist verulega um líf sitt
„Af hverju geðveiki? Þegar ég var ungur varð ég hættulega veikur og þurfti að liggja á spítala í nokkra daga. Í kjölfarið af því þurfti ég svo að hvíla mig heima og smátt og smátt féll ég í kolsvart þunglyndi. Sá slagur varð mér mikið erfiðari, ég óttaðist verulega um eigið líf og það tók mig um 2 ár að ná mér að mestu. Þó var alltaf eins og bölvuð lungnabólgan sem löngu var yfirstaðinn vægi mun þyngra í umræðu um mín veikindi. Stundum heyrir maður; „Ég frétti að þú hafir verið nær dauða en lífi hérna um árið!”,„Fyrirgefðu, var ég ekki að segja þér að ég væri búinn að vera frá vinnu mánuðum saman vegna geðhvarfasýki og þunglyndis?” Þetta er meira kjaftæðið. Geðsjúkdómar eru stórhættulegir! Samt er enn eins og fólk eigi bara að rífa sig á lappir, hætta þessu væli og reyna að láta nágrannann ekki fatta að það sé snargeðveikt,“ segir Ágúst Örn.
Harmsaga
Breiðskífan sem nú er í vinnslu er heilsteypt harmsaga um það hvernig einstaklingur getur orðið þunglyndi og ranghugmyndum að bráð.
Fyrstu tónleikar Röskunar verða haldnir á Græna Hattinum á Akureyri 23. janúar næstkomandi og þar mun önnur akureyrsk hljómsveit, Churchhouse Creepers koma kvöldinu í gang áður en Röskun stígur á svið. Væntanleg breiðskífa Röskunar verður svo leikin í heild sinni og megnið af lögunum verða frumflutt þetta kvöld.
Aldurstakmark á tónleikanna er 18 ár og miðaverð er 1.500,- krónur. Forsala verður á midi.is og í Eymundsson á Akureyri en einnig verður hægt að kaupa miða við hurð eins og þeir endast.