Aftakaatburðir tengdir loftslagsbreytingum, aukin tíðni þeirra, kraftur og tímalengd, eru í auknum mæli rakin til loftslagsbreytinga af mannavöldum. Þetta eru öfgar á borð við aftakahita á landi og legi, flóða, svæðisbundinna þurrka, bruna og aftakaveðurs. Þessir atburðir hafa valdið víðtækum og langvarandi áhrifum á vistkerfi, fólk, byggðarlög og innviði. Þar á meðal er aukin dánartíðni fólks og fjöldadauða tegunda á landi og í hafi, dauði hlýsjávarkóralla, dauði þaraskóga og aukinn dauði trjáa.
Þetta kemur fram í nýrri matskýrslu sérfræðingahóps milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) sem kom út í dag. Skýrslan er afrakstur vinnuhóps sem leggur mat á áhrif loftslagsbreytinga á lífríki og samfélög og skoðar möguleika á aðlögun, auk þess að leggja grunn að nauðsynlegum aðgerðum til þess að aðlagast loftslagsbreytingum.
Þá segir í skýrslunni að orðið hafi svæðisbundin aukning gróðurelda, sem og aukning í áhrifum af slíkum atburðum. Tap og tjón í náttúrlegum og manngerðum kerfum hafi aukist vegna aukningar á hitabeltisstormum af mannavöldum, hækkunar sjávarstöðu og mikillar úrkomu.
Mikilvægt að samfélög um allan heim grípi til aðgerða
„Þessi skýrsla IPCC dregur skýrt fram mikilvægi þess að samfélög um heim allan grípi til aðgerða til að sporna við loftslagsbreytingum, ekki bara til að draga úr losun og fjarlægja gróðurhúsalofttegundir úr andrúmsloftinu, heldur líka til að aðlagast óumflýjanlegum áhrifum loftslagsbreytinga. Við þurfum að búa okkur undir breyttan heim,“ segir Anna Hulda Ólafsdóttir, forstöðumaður skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands, sem var ein af fulltrúum Íslands sem sátu nýafstaðið samþykktarþing milliríkjanefndar sameinuðu þjóðanna um skýrsluna.
Fram kemur í skýrslunni að áhrif á náttúruleg og manngerð kerfi af völdum hæggengra ferla, svo sem súrnunar sjávar, hækkunar sjávarstöðu og minnkandi úrkomu, hafi verið rakin til loftslagsbreytinga af mannavöldum.
„Loftslagsbreytingar hafa valdið umtalsverðu tjóni, og óafturkræfu tapi á lífríki á landi, strandsvæðum, í ferskvatni og hafi (mikil vissa). Samsetning vistkerfa, virkni, seigla og aðlögunarhæfni innan þeirra hefur hrakað (mikil vissa), sem hefur haft í för með sér neikvæð félagshagfræðilegar afleiðingar (mikil vissa). Um það bil helmingur þeirra tegunda sem metnar voru á heimsvísu, hafa fært sig nær pólunum eða, þær tegundir sem eru á landi, einnig í meiri hæð (mjög mikil vissa). Staðbundinn aldauða má í hundruð tilfella má rekja til aukinna öfga í hitastigi (mikil vissu). Sumt tjón sökum loftslagsbreytinga af mannavöldum er nú þegar óafturkræft, svo sem útdauði að minnsta kosti tveggja tegunda (miðlungs vissa). Önnur áhrif eru á barmi þess að vera óafturkræf, svo sem breytingar á vatnafari vegna hörfunar jökla, og breytingar á vistkerfum til fjalla (miðlungs vissa) og á norðurskauti vegna þiðnunar sífrera (mikil vissa).“
Veðuratburðir hafa dregið úr hagvexti til skemmri tíma
Þá kemur enn fremur fram að neikvæð hagfræðileg áhrif og tjón sem rekja má til loftslagsbreytinga og öfga í veðurfari, hafi verið staðfest í auknum mæli. Vart hafi orðið við fjárhagslegt tjón í greinum sem verða fyrir beinum áhrifum frá loftslagi, með staðbundnum áhrifum á landbúnað, skógrækt, fiskveiðar, orkubúskap og ferðaþjónustu og með minnkandi framleiðni starfa utandyra.
„Sumir aftaka veðuratburðir hafa dregið úr hagvexti til skemmri tíma. Mynstur þróunar og aðrir þættir sem ekki tengjast loftslagi hafa átt þátt í því að eignir eru í auknum mæli berskjaldaðar gagnvart váatburðum sem eykur þannig tjón. Uppskerubrestur, áhrif á heilsu manna og fæðuöryggi, eyðilegging heimila og innviða, tjón á eignum og tapaðar tekjur, hefur haft áhrif á afkomu einstaklinga, sem hefur haft neikvæð áhrif á félagsjöfnuð og jöfnuð milli kynja.“
Þá segir að tjónnæmi lífkerfa og fólks gagnvart loftslagsbreytingum sé mjög ólíkt innan svæða og milli þeirra, sem drifið sé áfram af félagshagfræðilegri þróun, misskiptingu, jaðarsetningu, heimsvaldastefnu og stjórnmálum. 3,3 miljarðar manna lifi við aðstæður sem gera þá mjög viðkvæma gagnvart loftslagsbreytingum.
Hátt hlutfall dýrategunda sé jafnframt viðkvæmt fyrir loftslagsbreytingum. Varnarleysi manna og vistkerfa magni upp hvort annað. Ósjálfbær þróun auki varnarleysi vistkerfa og manna gagnvart loftslagsvánni.
Hraði loftslagsbreytinga ræðast mjög af þeim aðlögunaraðgerðum sem gripið verður til í nálægri framtíð
Við það að hlýnun jarðar nær eða fer fram úr 1,5°C í nálægri framtíð (2021-2040), mun óumflýjanleg fjölgun loftslagstengra náttúrváratburða hafa í för með sér margskonar áhættu fyrir vistkerfi og mannfólk. Áhættan mun ráðast af þróun tjónnæmis, sem og félagshagfræðilegri þróun og þróun aðlögunar, að því er fram kemur í skýrslunni.
Umfang og hraði loftslagsbreytinga og áhættan sem þeim breytingum fylgir, ráðist mjög svo af þeim aðlögunaraðgerðum sem gripið verður til í nálægri framtíð (2021 til 2040) og hvað verður gert til að draga úr losun. Það tjón og þau neikvæðu áhrif sem spár gera ráð fyrir, aukist við hvert stig hlýnunar.
Aukning á þurrkum, flóðum og hækkun sjávarstöðu muni minnka fæðuöryggi
Í skýrslunni segir að loftslagsbreytingar muni hafa í för með sér aukin áhrif á framleiðslu matvæla og aðgang að þeim, sérstaklega á viðkvæmum svæðum, sem grefi undan fæðuöryggi og næringu. Aukning á þurrkum, flóðum og hækkun sjávarstöðu muni minnka fæðuöryggi. Tíðari þurrkar og flóð og meiri hækkun sjávarstöðu, muni minnka fæðuöryggi.
„Hlýnun jarðar um 2°C eða meira er spáð fyrir 2050, áhætta varðandi fæðuöryggi verður orðin allsráðandi, sem leiða mun til vannæringar og skorts á snefilefnum ,einkum í Afríku sunnan Sahara, Suður-Asíu, Mið-Ameríku og smærri eyríkjum (mikil vissa). Hlýnun mun í auknum mæli veikja virkni innan vistkerfa, svo sem frjóvgun og jarðefnasamsetningu, auka ágengni frá skaðvöldum og sjúkdómum, og minka lífmassa sjávardýra, sem mun grafa undan fæðuöflun á landi og í hafi (miðlungs vissa). Við hlýnun um 3°C eða meira mun tjónnæmi gagnvart loftslagsvá aukast til muna (mikil vissa) og auka á misskiptingu milli svæða (mikil vissa),“ segir í skýrslunni.
Loftslagsbreytingar munu hafa áhrif á hvata sem valda átökum – svo sem fátækt
Aukning verður í fólksflutningum með tíðari flóðum, hitabeltisstormum, þurrkum og í vaxandi mæli vegna, hækkandi sjávarstöðu, samkvæmt skýrsluhöfundum. Hins vegar muni fólksflutningar og átök, jafnvel til lengri tíma litið, vera áfram drifin af félagshagfræðilegum og stjórnmálalegum þáttum. Umfang fólksflutninga muni ákvarðast af getu til aðlögunar, fólksfjölgun og stefnumörkun er varðar þróun og fólksflutninga. Á sama hátt, munu loftslagsbreytingar hafa áhrif á hvata sem valda átökum, svo sem fátækt; hvort til átaka kemur muni ráðast af hvernig stjórnmál og efnahagsmál þróast og sögu átaka.
Neikvæð áhrif loftslagsvár og tilheyrandi áhætta hafi nú keðjuverkandi áhrif á milli geira og á milli svæða og munu valda vendipunktum í viðkvæmum vistkerfum og keðjuverkandi neikvæðum áhrifum og tjóni við strendur og í þéttbýli sem og til fjalla. Á mörgum svæðum hafi gróðureldar haft áhrif á vistkerfi, dýrategundir, fólk og eignir þeirra, efnahagsstarfsemi og heilsu. Í borgum og byggðarlögum hafi loftslagsáhrif valdið tjóni og neikvæðum áhrifum á mikilvægum innviðum svo sem vatnsveitum og fæðukerfum og einnig haft áhrif á efnahagsstarfsemi, að því marki að áhrifa gæti utan þess svæðis sem varð fyrir loftslagsvánni.
Á Amazon-svæðinu munu keðjuverkandi áhrif, bæði frá loftslagstengdum áhrifaþáttum og annars konar áhrifaþáttum, valda óafturkræfum og alvarlegum skaða á virkni vistkerfa og líffræðilegum fjölbreytileika þeirra við 2°C hlýnun jarðar eða meira. Óumflýjanleg hækkun sjávarstöðu muni valda keðjuverkandi og samverkandi áhrifum með eyðileggingu á vistkerfi við strendur, valda seltu í grunnvatni, flóðum og tjóni á innviðum við strendur, með keðjuverkandi áhrifum á lífsviðurværi, heilsu, velferð, fæðu- og vatnsframboð sem og gildismat og viðhorf innan samfélaga í nálægri og fjarlægri framtíð.
Ef frekari seinkun verður á samhentum aðgerðum glatast tækifærið til að skapa lífvænlegri og sjálfbæra framtíð
Anna Hulda bendir á að niðurstaða skýrslunnar sé meðal annars sú að talið sé enn mikilvægara en áður að aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga sé mikilvægur þáttur í heildarstefnu samfélaga um heim allan.
„Þegar því er náð, erum við farin að nálgast það sem kallast „loftslagsþolin þróun“ og með „loftslagsþoli“ er átt við samsafnaðan viðnámsþrótt samfélags eða hluta þess gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga,“ segir hún. „Eins og segir í skýrslunni þá eru loftslagsbreytingar ógn við velferð fólks, dýra og heilsu jarðar. Ef frekari seinkun verður á samhentum aðgerðum á heimsvísu glatast tækifærið til að skapa lífvænlegri og sjálfbæra framtíð.“
Í skýrslunni segir að stutt sé við loftslagsþolna þróun þegar stjórnvöld, almenningur og einkageirinn taka ákvarðanir sem felur í sér forgangsröðun gagnvart jafnræði og réttlæti og því að draga úr áhættu og þegar ákvörðunarferli, fjármögnun og aðgerðir eru samþættar milli allra stiga stjórnsýslu, á milli atvinnugeira til langs og skamms tíma. Loftslagsþolin þróun byggi á stuðningi stjórnvalda á öllum stigum með því að vinna með almenningi, félagasamtökum, menntageiranum, stofnunum, fjölmiðlum, fjárfestum og fyrirtækjum; og með því að þróa samvinnu á milli stofnana og jaðarsettra hópa, svo sem kvenna, ungs fólks, frumbyggja, smárra samfélaga og þjóðernisminnihluta. Slík samvinna nái mestum árangri þegar hún er studd af öflugri stjórnmálaforystu, stofnunum, aðgengi að fjármagni, mannafli, búnaði, upplýsingum og hagnýtum lausnum.
Mikilvægt að standa vörð um vistkerfi og líffræðilegan fjölbreytileika
Í skýrslunni kemur enn fremur fram að það sé grundvallaratriði loftslagsþolinnar þróunar að standa vörð um líffræðilegan fjölbreytileika og vistkerfi. Nýlegar rannsóknir sýni að til að viðhalda loftslagsþoli vistkerfa og líffræðilegs fjölbreytileika, þurfi að vernda um það bil 30 til 50 prósent af landsvæði, ferskvatni og hafi á jörðinni með öflugum hætti, þar á meðal vistkerfa sem hafa orðið fyrir litlum áhrif af mannavöldum.
Loftslagsbreytingar hafi nú þegar raskað manngerðum og náttúrulegum kerfum og sú þróun sem á sér stað nú, ýti ekki undir loftslagsþolna þróun. Þær ákvarðanir sem verða teknar og framkvæmdar næsta áratuginn, munu ákvarða árangur loftslagsþolinnar þróunar til lengri tíma litið. Mikilvægt sé að átta sig á því að horfur um árangur í loftslagþolinni þróun versna ef ekki verður dregið hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda, sérstaklega ef horft er til þess möguleika að hlýnun jarðar fari fram úr 1,5°C í nálægri framtíð.
Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til eru flestar á smáum skala
Til að aðlagast áhrifum loftslagsbreytinga sem þegar eru merkjanleg, þarf að draga úr áhættu og tjónnæmi, mestmegnis með breytingum á núverandi kerfum, segir í skýrslunni. Margir möguleikar til aðlögunar séu til staðar og notaðir til að taka á þeim áhrifum loftslagbreytinga sem spáð er, en framkvæmd aðlögunaraðgera sé háð getu og skilvirkni stjórnvalda og ferla við ákvarðanatöku. Þetta, ásamt aðstæðum sem skapa tækifæri, geti einnig ýtt undir loftslagsþolna þróun.
Fram kemur að merkjanlegar framfarir og aukning sé í skipulagi og framkvæmd aðlögunar á öllum svæðum. Aukin vitund almennings og stjórnmálamanna um áhrif loftslagsbreytinga og áhættu sem þeim fylgja, hafi orðið til þess að að minnsta kosti 170 lönd hafa sett aðlögun inn í loftslagsstefnu sína og margar borgir horfa nú til loftslagsbreytinga þegar kemur að skipulagsmálum.
Anna Hulda segir að þrátt fyrir framfarir í aðlögun sé hún ekki komin á það stig sem þarf til að draga frekar úr áhættu vegna áhrifa loftslagsbreytinga.
„Í auknum mæli er verið að nota ýmis tól við ákvörðunartöku, s.s. líkön og sviðsmyndir, en slík tól eru hluti af því sem kallast loftslagsþjónusta. Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til eru þó flestar á smáum skala og afmörkuð við það að draga úr aðsteðjandi hættu og viðbrögð við núverandi hættu. Samkvæmt skýrslunni eru stærstu gloppurnar í þeim samfélögum þar sem tekjur fólks eru lægstar, en eru jafnframt oft þau samfélög sem eru hvað útsettust fyrir áhrifum loftslagsbreytinga. Ef ekki verður bætt í aðgerðir þá mun þessum gloppum því miður fjölga og þær stækka“ segir hún.
Áhrifaríkustu kostirnir byggja á samþættum aðgerðum milli geira sem taka á félagslegum ójöfnuði
Fram kemur í tilkynningu skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar um skýrsluna að loftslagsaðgerðir skiptist fyrst og fremst í tvennt. „Annars vegar mótvægisaðgerðir sem snúa að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda eða fjarlægja þær úr andrúmsloftinu og hins vegar aðlögunaraðgerðir. Aðlögunarðagerðir snúa þá fyrst og fremst að því að búa okkur undir breyttan heim með því að auka loftslagsþol með þeim hætti að draga úr tjónnæmi vegna loftlagsbreytinga sem vænta má í framtíðinni. En vissulega er tjónnæmi í framtíðinni einnig háð efnahagsþróun, en mikilvægt er að taka tillit til áhrifa loftslagsbreytinga við skipulag og hagstjórn og auka þannig möguleikann á aðlögunargetu og loftslagsþoli.“
Anna Hulda segir að hagkvæmustu og áhrifaríkustu kostirnir hvað varðar aðlögun byggi á samþættum aðgerðum milli geira sem taka á félagslegum ójöfnuði og taka einnig ólíkt á mismunandi áhættum.
„Aðlögun er oftast nær viðbrögð við fleiri þáttum en loftslagsbreytingum einum og sér og geta tengst stjórnun á t.d. bættum almannavörnum. Aðlögunaraðgerðir hafa það markmið að draga úr – eða seinka – áhrifum loftslagsbreytinga upp að því marki sem mögulegt er. En ef horft er til þess sem fram kemur í skýrslu IPCC sem var gefin út í dag, er líklegt er að áhrif loftslagsbreytinga muni að lokum verða meiri en aðlögunargeta samfélagslegra og náttúrulegra kerfa ræður við,“ segir hún.
Mikilvæg skref hafa verið tekin á Íslandi hvað varðar aðlögun
Fram kemur í tilkynningunni að staða Íslands í aðlögunarmálum hafi notið framgangs á undanförnum árum og misserum. Þar beri hæst að nefna hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum sem unnin var af starfshópi árið 2021 og samsvarandi stefnu sem byggð var á hvítbókinni og svo stofnun skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands árið 2021.
„Skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar verður vettvangur sem mun þjónusta brýn verkefni á sviði aðlögunar, leggja til sviðsmyndir að loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra, auk vöktunar á afleiðingum,“ segir Anna Hulda sem gegnt hefur starfi forstöðumanns frá stofnun skrifstofunnar haustið 2021.
„Skrifstofan er vettvangur fyrir vísindasamfélagið, fagstofnanir og hagaðila hvað varðar aðlögun auk þess mun skrifstofan sinna samstarfi á þessu sviði við alþjóðastofnanir og sinna miðlun um áhrif loftslagsbreytinga til hagsmunaaðila og almennings. Í þessu samhengi er hægt að tala um að skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar sé „brú milli vísinda og samfélags“. Hjá systurstofnunum okkar erlendis eru þetta svokölluð Climate Service Centres – sem er þá meðal annars „loftslagsþjónusta“, sem styður aðlögun þessara ríkja. Markmiðið með slíkum skrifstofum er ekki síst að ná fram meiri virðisauka í þeirri þekkingu sem liggur í fagstofnunum og miðla henni af meiri krafti en áður,“ segir hún.