Google hefur borist um 145 þúsund beiðnir frá aðilum sem vilja láta fjarlægja upplýsingar um sig úr leitarvélinni eftir að Evrópudómstóllinn úrskurðaði að fyrirtækið ætti að fjarlægja óviðkomandi og/eða úr sér gengnar upplýsingar með dómi í maí síðastliðnum. Niðurstaða dómstólsins byggir á rétti einstaklingsins til að verða gleymdur.
Það þýðir að Google berist meiri en eitt þúsund slíkar beiðnir á hverjum einasta degi. Alls geta rúmlega 500 milljón manns í 32 mismunandi löndum, þar með talið á Íslandi, farið fram á að hlekkir með upplýsingum um sig verði fjarlægðir úr leitarvél Google, sem er sú langstærsta í heiminum í dag.
Þjóðverjar með flestu beiðnirnar
The Guardian greinir frá því að um 18.304 beiðnir hafi borist frá Bretum til Google um að fjarlægja alls um 60 þúsund hlekki með upplýsingum um þá af leitarvefnum. Af þeim hefur Google fjarlægt 18.459 hlekki og hefur því orðið við um 35 prósent af beiðnunum.Flestir hlekkir hafa verið fjarlægðir að beiðni Frakka, 29.010, og Þjóðverja, 25.078.
Sú ákvörðun að fjarlægja hlekki að fréttum eða upplýsingum um nafngreinda einstaklinga vakti upp heitar umræður um hvort að með því færi fram ritskoðun á því efni sem birtist í leitarvél Google eða hvort verið væri að slá skjaldborg um sjálfsögð mannréttindi fólks.
Flestir hlekkir fjarlægðir á Facebook
Google hefur birt nokkur dæmi um beiðnir sem bárust frá Bretlandi. Fyrirtækið segist meðal annars ekki hafa orðið við beiðni frá fjölmiðlamanni um aðfjarlægja fjóra hlekki á greinar sem sögðu frá niðurlægjandi efni sem hann póstaði á internetinu né beiðni læknis sem fór fram á að um 50 hlekkir á fréttir um mislukkaða aðgerð sem hann tók þátt í yrðu fjarlægðir. Í síðara tilfellinu voru reyndar þrír af þeim hlekkjum sem læknirinn vildi losna við fjarlægðir en ekki var minnst á aðgerðina í neinum þeirra.
Sú síða sem flestir hlekkir hafa verið fjarlægðir á er Facebook, alls eru þeir 3.353 talsins. Profileengine.com er í öðru sæti og Youtube í því þriðja.