„Eitt af markmiðum með setningu laga um opinber fjármál árið 2015 var að bæta áætlanagerð um ríkisfjármál og auka festu við framkvæmd fjárlaga. Liður í því var að draga úr notkun fjáraukalaga. Frá því lögin gengu í gildi hefur þróunin hins vegar orðið þveröfug. Kemur þar ýmislegt til og má þar nefna tíð ríkisstjórnaskipti eftir að lögin tóku gildi en þó sérstaklega áhrif kórónuveirufaraldursins sem skall á í byrjun árs 2020. Eftir því sem meira jafnvægi kemst á ríkisfjármálin og þau færast í eðlilegra horf mun koma í ljós hvort það markmið laganna að draga úr aukafjárveitingum hafi gengið eftir.“
Þetta segir Ríkisendurskoðun í umsögn sinni um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2022 þar sem óskað er eftir því að stofnunin leggi mat á hvort frumvarpið fullnægi skilyrðum laga um opinber fjármál.
Í frumvarpi til fjáraukalaga, sem birt var 9. nóvember, voru settar fram tillögur um viðbótarheimildir í upp á 74,7 milljarða króna eyðslu. Um er að ræða 6,1 prósent útgjaldaaukningu.
Í lögum um opinber fjármál er tilgrein að fjármála- og efnahagsráðherra sé heimilt, gerist þess þörf, að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með úrræðum sem tilgreind eru í lögunum. Til er almennur varasjóður sem hægt á að vera að draga á ef sækja þarf nýjar heimildir. Til ráðstöfunar á árinu voru um 3,1 milljarður króna.
Sumt átti allsendis ekki að koma á óvart
Ríkisendurskoðun kemst að þeirri niðurstöðu að það hljóti að alltaf að vera matsatriði hvað teljist ófyrirséð og óhjákvæmileg útgjöld sem falli til eftir setningu fjárlaga. „Stjórnvöld hljóta enda að hafa töluvert svigrúm til mats á þessu en ættu engu að síður að geta rökstutt það mat vel. Ríkisendurskoðun telur þó rétt að benda á að sum útgjaldatilefni hefðu ekki átt að koma allsendis á óvart og má þar m.a. nefna útgjöld LSH og annarra heilbrigðisstofnana vegna kórónuveirufaraldursins. Við mat á slíkum viðbótarútgjöldum spilar auk þess inn í að á sama tíma var verið að innleiða styttingu vinnutíma sem samið var um í kjarasamningum en kostnaðarauki vegna þess kann einnig að hafa áhrif.“
Fjölgun flóttamanna kostar umtalsvert
Langstærstur hluti þeirra viðbótarútgjalda sem sækja þarf heimild fyrir eru um 37 milljarða króna vegna endurmetinnar þarfar um vaxtagjöld ríkissjóðs, sem eru tilkomin vegna áhrifa verðbólgu á verðtryggðar skuldir ríkissjóðs. Þá eru óskað eftir 16,6 milljarða króna viðbótarheimildum vegna kórónuveirufaraldursins, að uppistöðu vegna aukins rekstrarkostnaðar heilbrigðisstofnana sem taka til sín 15 af þeim milljörðum króna.
Fyrir liggur að það þurfi að eyða 4,9 milljörðum króna í svokallaðar efnahagslegar aðgerðir, en til þeirra teljast 2,2 milljarða króna styrkir til landbúnaðar, þriggja prósenta hækkun bóta almannatrygginga sem kostar 1,6 milljarð króna og barnabótaauki upp á 1,1 milljarð króna. Tveir síðastnefndu útgjaldaliðirnir eru vegna sérstakra efnahagsaðgerða sem kynntar voru í vor til að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins.
Viðbótarkostnaður vegna húsakaupa og endurgreiðslna
Einn liðurinn í fjáraukalögunum kallast einfaldlega „önnur útgjaldatilefni“. Þar er meðal annars að finna 2,9 milljarða króna viðbótarútgjöld vegna hæstaréttardóms sem féll fyrr á árinu og sagði að óheimilt væri að skerða framfærsluuppbót örorku- og ellilífeyrisþega á þeim forsendum að þeir hafi búið hluta starfsævi sinnar erlendis.
Stærsti nýi kostnaðarliðurinn sem fellur þar undir er þó sex milljarða króna eyðsla í kaup á hluta af nýjum höfuðstöðvum Landsbankans við Austurbakka. Þar á að koma fyrir utanríkisráðuneytinu auk þess sem hluti þess verður nýtt undir sýningar- og menningartengda starfsemi á vegum Listasafns Íslands, og er þá einkum horft til samtímalistar.
Annað mál sem verið hefur nokkuð í umræðunni á þessu ári er ákvörðun stjórnvalda að hækka endurgreiðslu vegna framleiðslukostnaðar kvikmyndaframleiðenda úr 25 í 35 prósent fyrir stærri verkefni. Ríkisstjórnin samþykkti frumvarp Lijlu D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um málið í maí og það var afgreitt sem lög frá Alþingi um miðjan júní. Innan kvikmyndageirans er almennt talið að framlagningu frumvarpsins hafi verið flýtt til að tryggja að framleiðsla á fjórðu þáttaröð True Detective færi fram hér á landi, en umfang þess er metið á níu milljarða króna.
Þegar frumvarpið var til umfjöllunar í atvinnuveganefnd snemma í sumar skilaði fjármála- og efnahagsráðuneytið inn minnisblaði þar sem gagnrýnt var að frumvarpið væri ófjármagnað og að skortur hefði verið á samráði við samningu þess. Í minnisblaðinu var bent á kostnaðaráhrif frumvarpsins, um ófjármagnað frumvarp sé að ræða og fjárheimildir væru því ekki til staðar til að mæta þeim kostnaðarauka sem frumvarpið hefði í för með sér. Í umræðum á þingi sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, frá því að hann hefði vakið athygli á því við ríkisstjórnarborðið að útgjaldaliðurinn, sem vistaður væri í menningar- og viðskiptaráðuneytinu hefði ekki nægilegt svigrúm til að fullnægja þeirri þörf sem myndi skapast fyrir endurgreiðslur.
Það kom enda í ljós og í fjáraukalagafrumvarpinu þarf að leggja tæplega 1,8 milljarð króna til í umframútgjöld vegna endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar.