„Það hafa verið tíðari fundir að undanförnu, þrír fundir í síðustu viku og síðan hefur verið boðað til fundar í Karphúsinu í dag, en það liggur ekkert tilboð á borðinu ennþá,“ segir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands. Ekkert tilboð hefur komið fram í launadeilu Læknafélags Íslands og stjórnvalda en verkfallsaðgerðir lækna hafa nú staðið yfir í ríflega mánuð.
Aðgerðirnar hafa haft alvarlegar og víðtækar afleiðingar fyrir fjölda fólks, en vel á fjórða hundrað aðgerðum hefur verið frestað vegna þeirra, og þjónustustig verið skert. Aðgerðirnar standa út næstu viku, en í dag hefst atkvæðagreiðsla þar sem læknar taka afstöðu til þess hvort gripið verði til frekari verkfallsaðgerða eftir áramót til að knýja á um launahækkun. Félagsmenn sem hafa um atkvæðisrétt eru um 900 talsins.
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
Þorbjörn segist ekkert vilja tjá sig um kröfur lækna, en það verði að vera veruleg hækkun á launum sem eigi sér stað núna. Aðstæðurnar í stéttinni séu þannig að það sé beinlínis nauðsynlegt. „Það er grafalvarleg staða uppi í stéttinni vegna læknaskorts og þeirrar stöðu, að ungir læknar skila sér ekki heim úr námi eða vinnu erlendis. Það verður að sporna við þessari þróun og hluti af því er að hækka launin verulega á þessum tímapunkti.“
Aðspurður um hvort læknar séu að gera kröfu um mun hærri launahækkanir en aðrar stéttir, og hvort það geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir verðlagsþróun og komandi kjarasamninga, segir hann þurfa að skoða málin í réttu samhengi. „Í fyrsta lagi hefur almenningur á Íslandi sýnt kröfum okkar um verulega launahækkun mikinn skilning, sem hefur endurtekið verið staðfestur í könnunum. Verulegar kjarabætur eru nauðsynlegar stéttinni og einnig fyrir heilbrigðisþjónustuna í heild sinni. Þannig verður að horfa á þetta mál, og á þeim forsendum eru við í þessum viðræðum og aðgerðum núna,“ segir Þorbjörn.