Margmenni var samankomið á sólmyrkvahátíð fyrir framan aðalbyggingu Háskóla Íslands til að sjá tunglið ganga fyrir sólina, enda um fátíðan atburð að ræða. Sólmyrkvagleraugu voru af skornum skammti en fólk dó ekki ráðalaust og brá filmum, rafsuðuglerjum, geisladiskum og nammibréfum fyrir augun.
Fulltrúar Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness leyfðu svo áhugasömum að horfa á sigð sólarinnar í stjörnukíkjum og öðrum mælitækjum. Var ekki að sjá annað en að fólki þættu þessi náttúruundur nokkuð tilkomumikil. Sólmyrkvahátíðin heldur svo áfram klukkan 17 í hátíðarsalnum í aðalbyggingu HÍ.
Anton Brink, ljósmyndari Kjarnans, var á ferðinni og fylgdist með gangi himintunglanna og var viðstaddur þegar fyrsta skóflustungan var tekin að hofi Ásatrúarfélagsins í Öskjuhlíð. Myndirnar má sjá hér að neðan.
Ítarlega var fjallað um sólmyrkvann í Þætti um kúl hluti á þriðjudaginn þegar sjónaukarnir og annar búnaður var prófaður fyrir sjálfan myrkvann. Þá er bent á Stjörnufræðivefinn þar sem sólmyrkvinn í morgunn er útskýrður.
Jóhanna Harðardóttir kjalnesingagoði blótaði guðunum við skóflustunguna í morgun. Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði fylgdist með álengdar. Mynd: Anton Brink
Hljómsveit lék tónlist í Öskjuhlíð að heiðnum sið. Mynd: Anton Brink
Skóflustungan var tekin í morgun í tilefni skólmyrkvans. Viðstaddir mundu eftir geisladiskunum og horfðu í gegnum þá til að sjá tunglið ganga fyrir sólina. Mynd: Anton Brink
Á sólmyrkvahátíðinni á flötinni fyrir framan Háskóla Íslands voru hundruð manns, ungir sem aldnir, komnir saman til að fylgjast með. Sumir föndruðu sín eigin sólmyrkvagleraugu. Mynd: Anton Brink
Myndavélar sáust víða á lofti og jafnvel þó mælt sé með að myndir af sólinni séu teknar með sérstökum búnaði þá sakaði ekki að reyna sólmyrkvagleraugun góðu. Mynd: Anton Brink
Fulltrúar frá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness leyfðu áhugasömum að skoða sólina og tunglið í sjónaukum af öllum stærðum og gerðum. Mynd: Anton Brink
Ólafur Haraldsson þjóðgarðsvörður leiðbeindi fólki. Mynd: Anton Brink
Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness stóð fyrir því að öll grunnskólabörn á landinu fengu gefins sólmyrkvagleraugu og hafa frætt kennrarana þeirra um stjörnufræði á síðustu vikum. Félagið hafði allskonar skrýtin búnað til að skoða sólina og undur hennar. Mynd: Anton Brink
Tungið hóf að ganga fyrir sólina um tuttugu mínútur fyrir níu í morgun. Mynd: Anton Brink
Eftir klukkan níu hafði tunglið gengið fyrir megnið af sólinni og við á Jörðinni tókum eftir að það rökkvaði örlítið. Mynd: Anton Brink
Sólmyrkvinn náði svo hámarki í Reykjavík klukkan 9:37 í morgun. Það kom á óvart hversu björt sólin var þrátt fyrir að aðeins 2,5% hennar næði að skína á mannfjöldann fyrir framan Háskóla Íslands. Mynd: Anton Brink