Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar segir að tillögur forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, um nýtt auðlindaákvæði í stjórnarskrá sé tillaga um þjóðareign hinna fáu.
Þetta kom fram í máli hennar undir liðnum störf þingsins á Alþingi í vikunni.
„Mig langar að tala um þjóðareign hinna fáu. Í þeirri umræðu sem nú á sér stað um ítök stórútgerðarinnar verða stjórnmálamenn að vera vakandi í því meginhlutverki sínu að verja almannahagsmuni. Í þessu samhengi verður að skoða það auðlindaákvæði sem Katrín Jakobsdóttir hefur nú lagt fram, og spyrja: Í þágu hverra er þetta ákvæði?“ spurði hún.
Vísaði hún í grein Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, þingflokksformanns VG, um nýtt auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem birtist á Kjarnanum 2. júní en þar hvetur Bjarkey þingmenn til að samþykkja frumvarp forsætisráðherra um málið. Sagði Þorbjörg Sigríður í ræðu sinni að svarið við spurningu hennar sjálfrar, varðandi það í þágu hverra þetta ákæði væri, kæmi fram í greininni. Vissulega væri mikilvægt að Íslendingar væru með auðlindaákvæði, eins og segir í grein Bjarkeyjar, en „án þess þó að miða algjörlega við þær helstu náttúruauðlindir sem við nýtum í dag“. Traust og tímalaust plagg yrði þá niðurstaðan, samkvæmt Bjarkeyju.
Niðurstaðan yrði óbreytt ástand fyrir almenning
„Niðurstaðan yrði vissulega traust og tímalaus fyrir stórútgerðina með auðlindaákvæði sem haggar í engu hagsmunum hennar. Niðurstaðan yrði því miður um leið óbreytt ástand fyrir almenning,“ sagði Þorbjörg Sigríður.
Benti þingmaðurinn á að í frumvarpi forsætisráðherra væri talað um þjóðareign en án þess þó að nefna að rétturinn til að nýta þessa þjóðareign ætti að vera tímabundinn og að fyrir þann rétt þyrfti að greiða eðlilegt gjald. „Til að gefa þessu orði þjóðareign raunverulega þýðingu þarf að tryggja að nýting á sameiginlegri auðlind sé gerð með tímabundnum samningum og það skiptir auðvitað líka máli að fram komi að greiða skuli eðlilegt gjald fyrir þessa nýtingu. Þannig verjum við hagsmuni almennings.
Þetta er það atriði sem öllu máli skiptir í hinu pólitíska samhengi og svar ríkisstjórnarinnar liggur skýrt fyrir. Hér á nefnilega engu að breyta. Það er af ástæðu sem þessi tillaga er þögul um stærstu pólitísku álitaefnin. Sterkustu skilaboðin hér felast nefnilega í því sem ekki er sagt, í þögninni um þau atriði sem myndu tryggja hagsmuni almennings. Herra forseti. Þetta er tillaga um þjóðareign hinna fáu,“ sagði hún.