Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra telur að tilnefningar Hæstaréttar á fulltrúum til setu í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum stjórnvalda séu „arfur frá gamalli tíð“ og að rétt væri að fela dómstólasýslunni að annast slíkar tilnefningar.
Hæstiréttur Íslands er líka á þeirri skoðun að rök standi til þess að þessi verkefni verði færð til dómstólasýslunnar, í samræmi við tillögur sem dr. Páll Hreinsson kom fram með í skýrslu sinni um sjálfstæðar stjórnsýslunefndir undir lok árs 2019.
Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherravið fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar þingmanns Pírata um áðurnefndar tilnefningar Hæstaréttar, sem allvíða í íslenskum lögum hefur það skilgreinda hlutverk að tilnefna fulltrúa í nefndir og ráð af ýmsu tagi. Alls tilnefndi dómstóllinn 25 manns í nefndir, ráð eða stjórnir í fyrra.
Í svari ráðherra segir að hún hafi beint því til forsætisráðuneytisins að hafa ábendinguna um að betur færi á því að dómstólasýslan færi með þetta hlutverk í huga þegar verð er að lesa yfir frumvörp til breytinga á lögum þar sem þessi ákvæði er að finna.
Af hverju ætti Hæstiréttur ekki að standa með sínum nefndarmönnum?
Dr. Páll Hreinsson sagði í skýrslu sinni að vandamál gætu komið upp vegna lögbundins hlutverks Hæstaréttar við tilnefningar í stjórnsýslunefndir, sérstaklega þegar rétturinn tilnefndi alla aðal- og varamenn í nefndir.
Frá sjónarhorni almenings, skrifaði Páll, væri þetta til þess fallið að draga mætti sjálfstæði og óhlutdrægni Hæstaréttar í efa þegar mál væri undir hann borið þar sem krafist væri ógildingar stjórnsýslunefndar, sem rétturinn hefur tilnefnt fulltrúa í.
„Út frá sjónarhorni almennra borgara vaknar sú spurning af hverju rétturinn skyldi ekki standa með þeim nefndarmönnum sem hann hafði slíka traust á að hann taldi sérstaka ástæðu og rök til að tilnefna þá til setu í nefndinni,“ segir í skýrslu Páls.
Dæmi um stjórnsýslunefndir þar sem flestir eða allir fulltrúar eru tilnefndir til setu af Hæstarétti eru áfrýjunarnefnd samkeppnismála, kærunefnd jafnréttismála, úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, kærunefnd úboðsmála, yfirfasteignamatsnefnd og kærunefnd húsamála.
Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga segir að Hæstiréttur leggi áherslu á að tilnefna „ávallt hæfustu einstaklingana til að takast á við þau verkefni sem óskað er tilnefningar í “ og þess sé „gætt að verkefnunum sé dreift þannig að þau leggist á fleiri hendur“ auk þess sem leitast væri við að tryggja að einstaklingar af báðum kynjum séu tilnefndir.
33 úr HÍ og 7 úr HR frá 2003
Andrés Ingi bað sérstaklega um að fá sundurliðun á tilnefningum starfsmanna lagadeila háskólanna í landinu í nefndir, ráð og stjórnir af hálfu Hæstaréttar. Niðurstaðan varð sú að frá árinu 2003 og til 20. apríl 2021 tilnefndi Hæstiréttur 33 starfsmenn lagadeildar Háskóla Íslands til einhverra starfa og sjö starfsmenn lagadeildar Háskólans í Reykjavík.
Þegar kemur að tilnefningum Hæstaréttar á starfsmönnum lagadeildanna er litið til rannsóknarsviða þeirra í lögfræðinni, með hliðsjón af því verkefni sem tilnefning lýtur að, segir í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurninni.