Dönsk stjórnvöld eru ævareið Tyrkjum fyrir að hafa sleppt úr haldi dönskum ríkisborgara sem reyndi að ráða danskan rithöfund af dögum. Tilræðismaðurinn var handtekinn í Tyrklandi, dönsk stjórnvöld höfðu óskað eftir framsali hans en manninum var sleppt áður en til þess kom.
Forsagan
Þann 5. febrúar 2013 hringdi dyrabjallan hjá Lars Hedegaard rithöfundi á heimili hans á Friðriksbergi við Kaupmannahöfn. Sá sem hringdi bjöllunni var í rauðum jakka, eins og póstmenn klæðast, og sagðist vera með pakka til rithöfundarins. Eftir að “póstmaðurinn” hafði rétt Hedegaard pakkann dró hann upp byssu, miðaði á höfuð hans og hleypti af. Ekki var miðið nákvæmara en svo að skotið geigaði og þegar tilræðismaðurinn ætlaði að bæta um betur stóð byssan á sér. Til handalögmála kom sem enduðu með því að tilræðismaðurinn komst undan og tókst lögreglunni ekki að hafa uppi á honum þrátt fyrir mikla leit.
Bíl sem tilræðismaðurinn hafði komið á, og skyldi eftir skammt frá húsi Hedegaards, hafði hann keypt og notað til þess fölsuð skilríki. Þótt ekki hafi verið staðfest hver ástæða þessa misheppnaða tilræðis var hafa danska lögreglan og rithöfundurinn sjálfur aldrei verið vafa um að skýringanna væri að leita í skrifum og ummælum Lars Hedegaard um múslima, sem voru oft á tíðum mjög umdeild.
Hedegaard hafði meðal annars verið dreginn fyrir rétt vegna ummæla í umræðuþætti sem birtur var á netinu, en málaferlin vöktu mikla athygli hér í Danmörku. Hedegaard var sýknaður á lægsta dómstigi (Byretten), fyrir millidómstigi (Landsretten) var hann dæmdur til að greiða 5000 króna sekt en loks sýknaður í Hæstarétti. Margir litu á þessi málaferli sem prófstein á málfrelsi en í áðurnefndum umræðuþætti hafði Hedegaard kveðið mjög fast að orði, svo fast að mörgum þótti nóg um.
"Póstmaðurinn" handtekin
Strax vaknaði grunur um að tilræðismaðurinn í rauða jakkanum hefði reynt að komast úr landi en um það var þó ekkert vitað. Að sögn rithöfundarins talaði maðurinn lýtalausa dönsku, sem talið var ótvírætt merki um að hann væri danskur eða hefði að minnsta kosti dvalist hér um langt skeið. En hann var horfinn og öruggt talið að hann hefði strax farið úr landi.
"Að sögn rithöfundarins talaði maðurinn lýtalausa dönsku, sem talið var ótvírætt merki um að hann væri danskur eða hefði að minnsta kosti dvalist hér um langt skeið. En hann var horfinn og öruggt talið að hann hefði strax farið úr landi."
Leið nú og beið.
Þann 5. apríl síðastliðinn handtók tyrkneska lögreglan 27 ára karlmann, danskan ríkisborgara, sem danska lögreglan telur öruggt að sé “póstmaðurinn”. Lögreglan hefur annars verið mjög spör á upplýsingar vegna handtökunnar en strax var hafinn undirbúningur þess að fá manninn framseldan hingað til Danmerkur. Slíkt getur tekið tíma og þykir ekki óeðlilegt. Rithöfundurinn Hedegaard lýsti yfir í viðtölum að hann vonaðist til að í réttarhöldum í Danmörku kæmi fram hvort þetta tilræði hefði verið einkaframtak viðkomandi manns eða hvort hann hefði verið fulltrúi einhverra samtaka og þá hvaða samtök ættu hlut að máli.
Lögregluyfirvöld í Danmörku upplýsa blaðamenn um handtöku tilræðismanns Hedegaard í Tyrklandi, á blaðamannafundi 27. apríl síðastliðinn.
Óvæntar fréttir
Þann 2. október síðastliðinn hitti starfsmaður danska sendiráðsins í Tyrklandi tyrkneska embættismenn. Þar fékk hann þær óvæntu fréttir að “kannski” væri danski ríkisborgarinn laus úr fangelsi, þessar fréttir voru þó óljósar. Rúmri viku seinna, 10. október, hafði danska rannsóknarlögreglan (PET) samband við Lars Hedegaard og tjáði honum að “póstmaðurinn” sæti ekki lengur í fangelsi í Tyrklandi. Um líkt leyti óskar danska sendiráðið í Ankara eftir svörum við því hvort maðurinn hefði verið látinn laus. Svör Tyrkja voru loðin og ekki afdráttarlaus og það var ekki fyrr en sendinefnd danskra embættismanna fór til Ankara og krafist skýrra svara að tyrknesk stjórnvöld staðfestu að danski ríkisborgarinn “póstmaðurinn” sæti ekki lengur í fangelsi.
Þegar óskað var skýringa á hverju það sætti var í fyrstu fátt um svör. Ekki fékkst staðfest að maðurinn væri einn þeirra sem Tyrkir slepptu í svonefndum fangaskiptum við Íslamska ríkið svonefnda (ISIS) en það hafði verið nefnt í fjölmiðlum. Danskir þingmenn reiddust mjög og ekki urðu upplýsingar sem síðar bárust til að bæta úr skák. Tyrknesk stjórnvöld tilkynntu þá Dönum að þau hefðu ekki viljað að manninum yrði sleppt en dómstóll hefði ákveðið að það skyldi gert, ástæðan sögð sú að lögmaður mannsins hefði óskað eftir því. Hvar “póstmaðurinn” væri niðurkominn sögðu tyrknesk stjórnvöld ekkert um, sögðust þó ekki vita til að hann væri farinn úr landi.
Danskir þingmenn æfir
Nú fór allt í háaloft í danska þinginu. Sumir kröfðust þess að stjórnmálasambandi við Tyrki yrði þegar í stað slitið, aðrir kröfðust refsiaðgerða gegn Tyrkjum. Tyrkneski sendiherrann í Kaupmannahöfn var kallaður í Utanríkisráðuneytið og hundskammaður (“fik en skideballe”eins og eitt blaðanna orðaði það) og honum gerð grein fyrir því að þetta mál drægi dilk á eftir sér og Danir myndu ekki orðalaust sætta sig við framkomu Tyrkja.
Hvað geta Danir gert?
Bæði Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra og Martin Lidegaard utanríkisráðherra sögðu margsinnis í viðtölum í fjölmiðlum, fyrst eftir að uppvíst varð um málið, að sú ákvörðun að sleppa “póstmanninum” úr haldi væri bæði óskiljanleg og óásættanleg. Forsætisráðherrann sagði að þetta mál yrði tekið upp innan Evrópusambandsins í tengslum við umfjöllun um ESB umsókn Tyrkja. Hvaða áhrif það hefur er óvíst. Þrátt fyrir að Tyrkir hafi fengið mikla gagnrýni, ekki síst vegna mannréttindamála, vilja stóru og áhrifamiklu þjóðirnar innan ESB ekki ganga of hart fram gagnvart þeim.
Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Dana, botnar hvorki upp né niður í ákvörðun tyrkneskra stjórnvalda um að sleppa tilræðismanninum úr haldi.
Það er athyglisvert að undanfarna daga hefur tónn dönsku ráðherranna mildast nokkuð. Í útvarpsviðtali föstudaginn 24. október síðastliðinn sagði Martin Lidegaard utanríkisráðherra að hann hefði rætt við tyrkneska sendiherrann fyrr um daginn, í alvarlegum tón. Forsætisráðherrann notar sömuleiðis mildara orðalag. Eitt dönsku blaðanna getur sér þess til að það hafi runnið upp fyrir dönsku ráðherrunum að innan ESB væri það, að manninum hafi verið sleppt ekki talið stórmál. Þess vegna væri réttast að spara stóru orðin þótt menn láti hvína í tálknunum “í túninu heima”.
Rithöfundurinn andar rólega
Þrátt fyrir að Lars Hedegaard sé mjög ósáttur við að Tyrkir hafi sleppt manninum segist hann anda rólega. Þótt maðurinn hafi reynst svo léleg skytta að hann hitti ekki mannshöfuð á eins metra færi sé hann varla svo skyni skroppinn að hann komi aftur til Danmerkur.