„Næsta tilraun reynir svolítið á það sem ég hef alltaf haldið, það að við Íslendingar höfum ekkert verðskyn,“ sagði Helgi Seljan, umsjónarmaður Ferðar til Fjár á RÚV, þegar hann hitti Hauk Frey Gylfason í síðasta þætti. Haukur Freyr er aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík og hefur í þáttunum framkvæmt hinar ýmsu tilraunir sem tengjast fjármálahegðun.
Í síðustu viku fengum við nokkra nemendur í HR til þess að raða algengum matvörum í rétta verðröð, frá ódýrustu vörunni til þeirrar dýrustu. Eins og áður hefur verið fjallað um í þáttunum og hér á Kjarnanum, þá er verð á vörum sífellt að breytast. Þess vegna getur verið ákaflega erfitt að fylgjast með því hvað hlutir kosta og verðskyn okkar getur bjagast. Þeir sem kaupa reglulega inn ættu þó að gera sér betur grein fyrir því hvað vörur kosti en hinir sem kaupa sjaldnar inn.
Vörurnar sem raða átti í rétta röð voru: Mjólk, kínakál, sólblóma, abt-mjólk, pakki af morgunkorni, hálft brauð, rjómi, ostur og múslí.
Næstum, en ekki alveg í réttri röð!
Niðurstaða tilraunarinnar var sú að enginn nemendanna gat raðað vörunum í rétta verðröð. Hefðir þú getað gert betur?
Fyrri tilraunir:
Sykurpúðatilraunin.
Hefur hegðun annarra áhrif á hegðun þína?
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 5. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.