Sameinuðu þjóðirnar gagnrýna bæði stjórnvöld og uppreisnarmenn í Úkraínu vegna fjölda óbreyttra borgara sem hafa látið lífið í bardögum í austurhluta landsins. Stríðandi fylkingarnar beri báðar ábyrgð á drápum á saklausu fólki.
SÞ hefur uppfært tölur um fjölda óbreyttra borgara sem hafa látist vegna ófriðarins í Austur-Úkraínu. 5.358 hafa látist frá því í apríl í fyrra. Þar af hafa 224 látist undanfarnar þrjár vikur, eða fleiri en 10 að meðaltali á hverjum degi, og 545 til viðbótar hafa særst vegna átakanna.
„Strætóskýli og almenningssamgöngur, markaðir, skólar og leikskólar, spítalar og íbúðahverfi eru orðin að vígvöllum og það brýtur augljóslega gegn alþjóðlegum mannúðarlögum,“ sagði Zeid Ra'ad Al Hussein, mannréttindastjóri SÞ, í gær.
Eftir nokkuð rólegan desembermánuð á svæðinu hófust bardagar á nýjan leik af mikilli hörku í janúar. Nýlegustu tilraunum til friðarviðræðna var hætt um helgina.
Hingað til hefur Barack Obama Bandaríkjaforseti verið mótfallinn því að senda hernaðaraðstoð til aðstoðar úkraínskum stjórnvöldum, en AP fréttastofan segir frá því í dag að háttsettur embættismaður innan Bandaríkjastjórnar hafi greint fréttastofunni frá því að eftir atburði undanfarinna vikna sé nú verið að endurskoða þá stefnu.
Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði hins vegar í Berlín í dag að Þjóðverjar myndu ekki taka þátt í að senda vopn til Úkraínu, heldur ætli hún að einbeita sér að því að friðsamleg lausn finnist.