Alls nýttu landsmenn 1.076 milljónir króna af seinni ferðagjöf stjórnvalda, en frestur til að nýta hana rann út síðastliðinn fimmtudag. Um 20 prósent upphæðarinnar, alls 226 milljónir króna, voru nýttar á síðasta degi gildistíma hennar. Þetta kemur fram í upplýsingum frá Ferðamálastofu.
Þegar stjórnvöld ákváðu að ráðast í aðra umferð á útdeilingu ferðagjafar þá var gengið út frá því að 1,4 milljarðar króna yrðu til útdeilingar. Hluti þeirrar upphæðar færðist úr þeim sjóðum sem teknar höfðu verið til hliðar vegna fyrstu ferðagjafarinnar en voru ekki nýttir, alls um 650 milljónir króna, en til viðbótar voru settar 750 milljónir króna í viðbótarfjármagn úr ríkissjóði í verkefnið.
Það þurfti ekki að ferðast til að nýta ferðagjöfina, sem var fimm þúsund krónur á hvern fullorðinn Íslending. Hægt var að nýta hana í næsta nágrenni við heimili sitt til að kaupa eldsneyti, mat eða ýmis konar þjónustu. Fjölmörg fyrirtæki buðu til að mynda upp á það að landsmenn gætu keypt gjafabréf upp á aðeins hærri upphæð fyrir ferðagjöfina, og þannig notað hana síðar.
Í niðurbroti á skiptingu gjafarinnar kemur fram að um 72 prósent upphæðarinnar hafi annað hvort farið til fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu (50,9 prósent) eða til landsdekkandi fyrirtækja (21 prósent).
Nokkrir tóku mest
Alls fór næstum 40 prósent allra ferðagjafa til tíu fyrirtækja. Þau sem tóku mest til sín eru eldsneytissalarnir N1 (91 milljón króna) og Olís (57 milljónir króna). Bæði þessi fyrirtæki eru í eigu félaga sem skráð eru á hlutabréfamarkað og skila miklum hagnaði árlega, annars vegar Festa og hins vegar Haga.
Þau tíu fyrirtæki sem fengu mest út úr ferðagjöfinni eru eftirfarandi:
- N1 91.072.061 krónur
- Olís 56.913.486 krónur
- Sky Lagoon 48.011.254 krónur
- Tix 45.356.975 krónur
- KFC 37.741.496 krónur
- Hlöllabátar 34.883.039 krónur
- Flugleiðahótel (Icelandair Hotels) 31.965.564 krónur
- Flyover Iceland 27.753.846 krónur
- Pizza-Pizza 26.739.943 krónur
- Icelandair 22.335.409 krónur
Alls topp tíu: 422.773.073 krónur
Rann æði á landann síðasta daginn
Síðasta daginn sem ferðagjöfin gilti, 30. september, rann á þjóðina ferðagjafaræði. Þann dag notuðu landsmenn 226 milljónir króna í ferðagjafir til fyrirtækja. Um helmingur þeirrar upphæðar fór til tíu fyrirtækja. Mest tók N1 til sín á lokadeginum, eða 27,4 milljónir króna. Það þýðir að 30 prósent upphæðarinnar sem N1 fékk í ferðagjöf kom inn á síðasta gildisdegi hennar. Mikil hvatning, meðal annars á samfélagsmiðlum, frá lista- og afþreyingarsamfélaginu til fólks um að nota ferðagjöfina í að kaupa miða á ýmiskonar sýningar skilaði því að 22,3 milljónir króna runnu í kaup á vörum hjá Tix.is þann 30. september. Því kom rétt um helmingur þeirrar heildarupphæðar sem Tix náði í úr ferðagjöfinni inn á einum sólarhring.
Til samanburðar notuðu Íslendingar 87 milljónir króna í ferðagjöf á síðasta gildisdegi fyrri gjafarinnar, í lok maí síðastliðins, eða um þriðjungi þeirrar upphæðar sem var eytt nú. Vert er þó að taka fram að gildistími fyrri ferðagjafarinnar var mun lengri og fleiri búnir að ráðstafa henni fyrir síðasta daginn þá en nú.
Þau tíu fyrirtæki sem fengu mest út úr ferðagjöfinni þann 30. september eru eftirfarandi:
- N1 27.403.425 krónur
- Tix 22.327.289 krónur
- Olís 14.501.395 krónur
- Hlöllabátar 12.976.634 krónur
- Sky Lagoon 6.726.578 krónur
- KFC 6.369.801 krónur
- Flugleiðahótel (Icelandair Hotels) 6.364.701 krónur
- Flyover Iceland 4.931.880 krónur
- Pizza-Pizza 4.508.170 krónur
- Borgarleikhúsið 3.924.042 krónur
Alls topp tíu: 110.033.915 krónur
Rúmir tveir milljarðar allt í allt
Í tölum Ferðamálastofu kemur fram að alls hafi verið sóttar 231.331 ferðagjafir fyrir 1.157 milljarð króna. Notaðar voru 218.934 ferðagjafir og voru 194.171 fullnýttar (5.000 krónur) Ónotaðar ferðagjafir voru 12.397 og nemur ónotuð upphæð um 80 milljónum króna. Heildarupphæð sem nýtt var í ferðagjöf var, líkt og áður sagði, 1.076.841.713 krónur.
Samkvæmt mælaborði ferðaþjónustunnar var rétt rúmlega milljarður greiddur út í formi ferðagjafar í síðustu atrennu. Ferðagjöf 2020 átti að gilda frá júní í fyrra og út árið 2020 en var framlengd til loka maí á þessu ári. Af þeim 280 þúsundum sem gátu nýtt sér síðustu ferðagjöf sóttu 240 þúsund gjöfina en heildarfjöldi notaðra gjafa nam 207 þúsundum. Því er heildarkostnaður skattgreiðenda vegna ferðagjafarinnar rúmlega tveir milljarðar króna.
Mörg þeirra fyrirtækja sem fengu mest út úr seinni ferðagjöfinni mynduðu þann hóp sem fékk mest út úr þeirri fyrri. Þar ber helst að nefna eldsneytissalana N1 og Olís og skyndibitakeðjurnar Domino´s og KFC.