Business Insider birtir reglulega lista yfir tíu mikilvægustu hlutina sem eru að gerast í heiminum í dag að þeirra mati. Það er ágætt að taka sér smá hlé frá dægurþrasi hérlendis og skoða heiminn.
- Eftir átján mánaða erfiðar viðræður rennur frestur til að semja um kjarnorkumál við Íran út á miðnætti í kvöld. Maraþonfundir eru því í gangi í Sviss til þess að reyna að klára málið.
- Andreas Lubitz, flugmaðurinn sem er talinn hafa grandað farþegaþotu í ölpunum í síðustu viku, sagði „vonandi“ og „kemur í ljós“ þegar flugstjóri vélarinnar ræddi um væntanlega lendingu vélarinnar í Dusseldorf.
- Haldið verður áfram að telja atkvæði í forsetakosningum í Nígeríu í dag, en fyrstu niðurstöður benda til þess að fyrrum herstjórinn Muhammadu Buhari hafi forskot á núverandi forsetann Goodluck Jonathan.
- Forstjóri rafbílafyrirtækisins Tesla, Elon Musk, tilkynnti á Twitter að fyrirtækið hyggist kynna nýja vörulínu í Kaliforníu þann 30. apríl næstkomandi.
- Repúblikanar í Indiana í Bandaríkjunum hafa heitið því að skýra betur ný og umdeild trúfrelsislög, eftir mikla gagnrýni. Lögin heimila fyrirtækjum að neita fólki um þjónustu af trúarlegum ástæðum, en gagnrýnendur hafa bent á að það bjóði upp á mismunun gegn hinsegin fólki.
- Einn maður var skotinn til bana og annar særður alvarlega eftir að þeir reyndu að aka niður hlið að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA, í gær.
- Japanir ætla að framlengja viðskiptabanni við Norður-Kóreu í tvö ár vegna tafa á rannsókn hinna síðarnefndu á ráni á japönskum ríkisborgurum fyrir áratugum síðan.
- Ein milljón nýrra "grænna" starfa verða til í Kína, Bandaríkjunum og Evrópusambandinu fyrir árið 2030 ef ríkin standa við áheit sín um baráttu gegn hnattrænni hlýnun.
- Þingmenn í Kanada ákváðu í gær að styðja loftárásir á Íslamska ríkið í Sýrlandi.
- Hlýnun í Kyrrahafinu getur bent til þess að El Nino veðurfyrirbrigðið sé að myndast þar, að sögn veðurfræðinga í Ástralíu.