Business Insider hefur tekið saman sinn lista yfir tíu mikilvægustu hlutina sem eru að gerast í heiminum í dag. Ýmislegt áhugavert er á listanum í dag, þótt alltaf megi deila um mikilvægi ýmissa mála.
- AK flokkurinn í Tyrklandi missti þingmeirihluta sinn í gær eftir þrettán ára valdatíð. Nú þarf flokkurinn að reyna að mynda meirihluta með stjórnarandstöðuflokki.
- Áætlanir Grikkja njóta ekki stuðnings frá lánardrottnum sínum. Grikkir vilja endurskipuleggja skuldir ríkisins með því að endurfjármagna lán og fá afskriftir af þeim.
- Breska fyrirtækið CBI hefur breytt hagvaxtarspám sínum fyrir Bretland og varað við alvarlegum afleiðingum af því ef Grikkland hættir að vera aðildarríki að ESB. CBI spáir 2,4 prósenta vexti á þessu ári og 2,5 prósentum á næsta ári.
- Sepp Blatter, forseti FIFA, ræddi um tíu milljóna dala greiðslu við Thabo Mbeki, sem þá var forseti Suður-Afríku, í tölvupósti. FIFA hefur því þurft að viðurkenna að Blatter vissi um þessa greiðslu.
- Starfsmaður í Barclays-banka, Justin Kwan, skrifaði tölvupóst til lærlinga í bankanum sem bar titilinn "velkomin í frumskóginn" og innihélt leiðbeiningar sem hann kallaði boðorð. Þar var ýmislegt niðrandi að finna, og eftir að Wall Street Journal birti tölvupóstinn hefur verið greint frá því að hann hafi verið rekinn úr bankanum.
- David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur gefið í skyn að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hans verði látnir hætta ef þeir styðja ekki áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu. 60 þingmenn flokksins hafa tilkynnt að þeir muni berjast fyrir því að Bretland yfirgefi sambandið.
- Lögreglumaður í Texas hefur verið settur í leyfi eftir að hann beindi byssu að óvopnuðum unglingum í sundlaugapartýi. Unglingarnir voru blökkumenn, og myndband af atvikinu var sett á netið.
- Tilkynnt hefur verið að Caitlyn Jenner hljóti ESPY verðlaunin sem bandaríska íþróttastöðin ESPN veitir, en Caitlyn hét áður Bruce og vann til gullverðlauna á Ólympíuleikum. Mynd af manni sem missti tvo útlimi í Írak, og er sagður hafa tapað verðlaununum fyrir Caitlyn fer nú um internetið eins og eldur í sinu, en ESPN segir myndina ranga.
- Fjölmiðlar fjalla nú með ólíkum hætti um súpermódelið Kate Moss og flugferð hennar frá Tyrklandi til London. Daily Mail segir að henni hafi verið fylgt úr fluginu og hún handtekin eftir að hafa verið með ólæti í vélinni, en Telegraph segir að ekkert slíkt hafi átt sér stað.
- Suður-Kóreskir vísindamenn hafa hlotið tvær milljónir dala í verðlaun frá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna eftir að vélmenni sem þeir smíðuðu hafði betur gegn 22 öðrum vélmennum. Vélmennin voru látin keppa í ýmsum þrautum, eins og að keyra bíl.