Business Insider tekur reglulega saman lista yfir tíu mikilvæga hluti sem eru að gerast í heiminum hverju sinni. Að venju er margt að gerast.
- Að minnsta kosti níu manns létu lífið í skotárás í Charleston í Suður-Karólínu í gærkvöldi. Árásin er rannsökuð sem hatursglæpur, en ráðist var á kirkju blökkumanna. Leitað er að hinum grunaða, hvítum karlmanni á þrítugsaldri.
- Grikkir taka nú háar upphæðir út úr bönkunum á hverjum degi vegna ótta við að greiðslufall verði hjá gríska ríkinu og sett verði á höft.
- Ýmsar vefsíður kanadískra stjórnvalda voru teknar niður í tölvuárás á miðvikudag, en tölvuhakkarahópurinn Anonymous hefur lýst árásinni á hendur sér.
- Þingmenn í Hong Kong ræða nú um breytingar á kosningakerfinu sem myndu leyfa öllum íbúum Hong Kong að kjósa um leiðtoga, en aðeins úr hópi frambjóðenda sem valdir eru af nefnd hliðhollri stjórnvöldum í Peking. Breytingarnar hafa verið gagnrýndar sem sýndarlýðræðisumbætur, og líklegt er að þær nái ekki fram að ganga.
- Ungverjar ætla að byggja fjögurra metra háa girðingu meðfram landamærum sínum við Serbíu til þess að hindra för innflytjenda yfir landamærin.
- Dómstóll í Kaliforníu hefur úrskurðað að bílstjórar hjá Uber séu starfsmenn en ekki sjálfstæðir verktakar, en þetta gæti breytt viðskiptamódeli leigubílafyrirtækisins verulega.
- Kosið er til þings í Danmörku í dag. Afar mjótt er á munum milli fylkinga.
- Cisco, stærsti framleiðandi internet-routera, ætlar að fjárfesta fyrir meira en tíu milljarða dala í Kína á næstu árum. Fjárfestingunni er ætlað að fjármagna nýsköpun, rannsóknir og þróun.
- Kanadískur unglingur var myrtur eftir að hann notaði smáforrit til að rekja hvar síminn hans var niðurkominn, eftir að honum var stolið. Þegar hann kom á staðinn mættu honum þrír menn og hann var skotinn nokkrum sinnum.
- Tíu dala seðillinn í Bandaríkjunum mun breytast á næstu árum, en ákveðið hefur verið að setja mynd af konu við hlið myndarinnar sem nú er á seðlinum, en hún er af Alexander Hamilton. Ekki hefur verið ákveðið hvaða kona mun prýða seðilinn.