Business Insider tekur í dag eins og svo oft áður saman lista yfir tíu mikilvægustu hlutina sem eru að gerast í heiminum í dag, að þeirra mati.
- Þjóðernishreyfingin í Tyrklandi hefur hafnað stjórnarsamstarfi við stjórnarflokkinn AK og neitar að verja minnihlutastjórn flokksins. Áfram er því pólitísk krísa í Tyrklandi eftir kosningarnar þar í júní.
- Tölvuárás á ríkisskattstjóra í Bandaríkjunum var mun umfangsmeiri en áður hafði verið greint frá. Í árásinni náðust upplýsingar um 334 þúsund skattgreiðendur.
- Búið er að bera kennsl á mann sem grunaður er um að hafa borið ábyrgð á sprengjuárásinni í Bangkok í gær. Sprengjan varð að minnsta kosti 21 að bana.
- Wall Street Journal greinir frá því að nú reyni stjórnvöld í Þýskalandi hvað þau geta að koma í veg fyrir uppreisn meðal þingmanna, en tveir dagar eru þar til þingið kýs um neyðarlánasamkomulag við Grikkland.
- Shell hefur fengið leyfi til þess að bora eftir olíu og gasi á norðurskautinu.
- Yfir 300 tölvupóstar sem Hillary Clinton sendi úr einkapósti sínum á meðan hún var utanríkisráðherra Bandaríkjanna eru nú til skoðunar yfirvalda, sem munu kanna hvort í þeim hafi verið trúnaðarupplýsingar.
- Jeff Bezos, forstjóri Amazon, hefur svarað fréttaflutningi New York Times um vinnumenninguna innan stórfyrirtækisins. Hann segir fréttaskýringarnar ekki endurspegla þann vinnustað sem hann þekkir.
- Íran vill vinna að friði í Miðausturlöndum og vill eiga samstarf við önnur ríki á svæðinu um frið. Þetta segir Masumeh Ebtekar, varaforseti Írans, í viðtali við BBC.
- Búið er að komast að flaki flugvélar sem hrapaði í Indónesíu um helgina. Stjórnvöld segja vélina gjörónýta og enginn hafi komist lífs af í slysinu.
- Brasilíska fyrirtækið Petrobras gæti þurft að borga allt að 1,6 milljarða dollara í sekt vegna spillingarmála.