Business Insider tekur saman tíu mikilvægustu hlutina sem eru að gerast í heiminum í dag. Eins og undanfarið eru fréttir um flóttamannakrísuna áberandi.
- Miðborg Peking er lokuð til þess að hægt sé að halda risavaxna herskrúðgöngu til að minnast þess að 70 ár eru liðin frá því að Japanir gáfust upp í seinni heimstyrjöldinni. Xi Jinping, forseti Kína, hefur einnig tilkynnt að kínverski herinn verði minnkaður.
- Forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orban, mun hitta leiðtoga Evrópusambandsríkja í Brussel í dag til að ræða flóttamannakrísuna, en þúsundir flóttamanna eru enn strandaglópar fyrir utan stærstu járnbrautastöðina í Búdapest.
- Bandaríkin fylgjast nú með fimm kínverskum herskipum sem eru undan ströndum Alaska, en það er í fyrsta sinn sem kínverski sjóherinn hefur verið með skip á þessum slóðum.
- Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur tryggt sér nægan stuðning innan öldungadeildar þingsins fyrir samkomulaginu við Íran.
- Deutsche Bank varar við því að óvissa á mörkuðum, sem hefur verið mikil undanfarna daga, muni halda áfram á næstunni.
- Flugmenn Lufthansa gætu verið á leið í verkfall enn á ný vegna langvarandi vinnudeilna.
- Nærri 150 milljónir starfsmanna í Indlandi fóru í verkfall í gær til að mótmæla áformum Narendru Modi forsætisráðherra um að breyta vinnulögum í landinu og gera atvinnurekendum auðveldara að ráða og reka starfsfólk.
- Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að hægari efnahagsvöxtur í Kína hafi stærri áhrif á hagkerfi heimsins en búist var við.
- Skýrsla Sameinuðu þjóðanna segir að stríð í heiminum hamli skólagöngu þrettán milljóna barna í Miðausturlöndum og Norður-Afríku.
- Elon Musk, forstjóri Tesla, hefur greint frá því að fyrirtækið muni hefja framleiðslu á ódýrari tegund rafmagnsbíla eftir tvö ár, og hægt verði að forpanta slíka bíla í mars á næsta ári.