Eins og svo oft áður tekur Business Insider saman lista yfir mikilvægustu hlutina sem eru að gerast í heiminum í dag.
- Þjóðverjar juku eftirlit með landamærum sínum við Austurríki tímabundið í gær. Metfjöldi hælisleitenda hefur komið yfir landamærin undanfarnar vikur.
- Egypskar öryggissveitir myrtu óvart mexíkóska ferðamenn þegar þeir eltust við hryðjuverkamenn í gær. Stjórnvöld segja að ferðamennirnir hafi ekki látið vita af ferðum sínum og verið á svæði þar sem umferð er bönnuð.
- Yfir þrjú þúsund manns í Norður-Kaliforníu hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna skógarelda sem hafa geisað á stórum svæðum yfir helgina.
- Hækkanir urðu á asískum mörkuðum við opnun þeirra þrátt fyrir lélegar hagtölur sem komu frá Kína yfir helgina.
- Skoðanakannanir í Grikklandi sýna að Syriza og Nýtt lýðræði eru nánast jafnir. Kosningar í Grikklandi fara fram eftir viku.
- Veðurstofan í Bretlandi spáir því að 2015 og 2016 gætu orðið hlýjustu ár frá því að mælingar hófust.
- Forsíðuúttekt í blaðinu Barron's spáir því að hlutabréf í smásölurisanum Alibaba gætu lækkað um 50% til viðbótar við það sem þegar hefur orðið.
- Bhumibol Adulyadej, konungur Taílands, er enn á spítala en þar hefur hann dvalið í þrjá mánuði. Um helgina fékk hann meðhöndlun vegna blóðsýkingar og lungnabólgu.
- Aso-eldfjallið í Japan hóf að gjósa í dag. Ekki hafa borist fregnir af slysum vegna eldgossins.
- Jeremy Corbyn var kjörinn formaður Verkamannaflokksins um helgina. Margir spá því að þetta muni hjálpa Íhaldsflokknum í næstu kosningum.