Business Insider tekur reglulega saman lista yfir tíu mikilvægustu hlutina sem eru að gerast í heiminum þann daginn.
- Táragasi og vatni var beitt af lögreglunni gegn flóttafólki á landamærum Serbíu og Ungverjalands. Sameinuðu þjóðirnir fordæma framferði Ungverja.
- Jarðskjálfti upp á 8,3 reið yfir Chile í nótt með þeim afleiðingum að minnst fimm eru látnir og gefin var út viðvörun um möguleikann á flóðbylgju.
- Tilkynnt verður í dag hvort stýrivextir í Bandaríkjunum verða hækkaðir í fyrsta sinn frá því í fjármálakreppunni eða ekki. Ákvörðunin getur haft víðtæk áhrif víða um heim.
- Hlutabréfaverð í Asíu er hærra en verið hefur undanfarnar þrjár vikur nú þegar ákvörðunar seðlabanka Bandaríkjanna um stýrivaxtahækkun er beðið.
- Ellefu frambjóðendur tóku þátt í öðrum kappræðum repúblikana sem haldnar voru í gærkvöldi. Spjótin stóðu á Donald Trump, sem hefur mælst efstur í mörgum skoðanakönnunum.
- Rússar hafa lagt til viðræður milli herja Rússa og Bandaríkjamanna vegna ástandsins í Sýrlandi. Merki hafa verið um aukna viðveru Rússa í Sýrlandi undanfarið.
- Dómsmálaráðuneytið í Bandaríkjunum hefur samþykkt kaup ferðaþjónusturisans Expedia á keppinautnum Orbitz fyrir 1,3 milljarða dala. Engar vísbendingar fundust um að verð til neytenda myndi hækka ef fyrirtækin tvö sameinuðust.
- Jeremy Corbyn, nýr leiðtogi breska Verkamannaflokksins, notaði fyrsta spurningatíma sinn í þinginu til þess að bera fram spurningar frá almenningi til forsætisráðherrans.
- Tvö stærstu brugghús heimsins, SABMiller og Anheauser-Busch InBev, eru í viðræðum um sameiningu. Slík sameining yrði 250 milljarða dala virði og úr yrði fyrirtæki með þriðjungs markaðshlutdeild í bjórframleiðslu í heiminum.
- Dauðsföllum af völdum malaríu hefur fækkað um 60% frá árinu 2000. Alþjóðaheilbrigðismálastofnun segir þetta einn stærsta heilsugæslusigur undanfarinna 15 ára.