Business Insider tekur reglulega saman yfirlit yfir tíu mikilvægustu hlutina sem eru að gerast í heiminum nákvæmlega núna. Það er ágætt fyrir Íslendinga að taka sér frí frá þrasi um pólitískan ómöguleika, endalausan misskilning og karpi um hvort Evrópusambandsumsókn sé enn skrásett eða ekki og horfa á allt hitt sem er að eiga sér stað í hinum stóra heimi.
Tíu mikilvægustu hlutirnir í heiminum í dag eru:
- Það er búið að finna flugritann, hinn svokallaða svarta kassa, úr Airbus 320 vél Germanwings flugfélagsins sem hrapaði í frönsku ölpunum í gærmörgun. 150 manns er taldir af eftir slysið, en vélin var að fljúga frá Barcelona til Dusseldorf.
- Brasilíska fjárfestingafélagið 3G Capital er í viðræðum um að kaupa Kraft Foods, sem er ristastórt bandarískt matvöruframleiðslufyrirtæki. Á meðal vörumerkja Kraft Foods eru Kool Aid og Philadelphia smurosturinn.
- Svíar stöðvuðu fjórar rússneskar herflugvélar sem flugu yfir Balkanlöndin með slökkt á sendum sínum.
- Jeremy Clarkson verður að öllum líkindum rekinn úr Top Gear-þáttunum vegna stympinga sem áttu sér stað milli hans og eins framleiðenda þáttanna.
- Sádí Arabía er að auka hernaðarstyrk sinn við landamæri Jemen. Talið er að aðgerðin sé til þess að auka varnir gegn hinum herskáu Houthi sjítum, sem studdir eru af írönskum stjórnvöldum.
- Ihor Kolomoisky, sem var landsstjóri í iðnaðarhéraðinu Dnipropetrovsk í Úkraínu, og þykir hafa leikið lykilhlutverk í að stöðva framgang aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins, hefur verið rekinn af Petro Poroshenko, forseta landsins. Kolomoisky er einn ríkasti maður landsins.
- Þúsundir Singapúr-búa horfðu á þegar vopnað fylgdarlið færði lík Lee Kuan Yew, fyrrum forsætisráðherra landsins, í þinghús borgríkisins. Þar mun hann liggja til sýnis fram á laugardag.
- Embættismenn í Delí, næststærstu borg Indlands, hafa biðlað til upplýsingatækniiðnaðarins í landinu um að blokka Uber-appið og indverskan samkeppnisaðila þess, Ola.
- Fyrirtækið sem stendur á bakvið Hyperloop, háhraða samgöngukerfi sem runnið er undan rifjum frumkvöðulsins Elon Musk, er byrjað að ráða starfsfólk og leigja sér skrifstofurými í miðborg Los Angeles.
- Kína hefur látið bandarískum stjornvöldum í té lista yfir „efnahagslega flóttamenn“, sem mögulega hafa flúið alþýðulýðveldið og sest að í Bandaríkjunum. Margir þeirra eru spilltir fyrrum embættismenn.