Meirihluti fjárlaganefndar, sem skipaður er nefndarmönnum stjórnarflokkanna þriggja, leggur til að tíu milljónir króna verði settar í undirbúning fyrir þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir á næsta ári. Ekkert framlag er til nýs þjóðarleikvangs í knattspyrnu í Laugardal.
Í rökstuðningi fyrir framlaginu segir að samkvæmt stjórnarsáttmála sé þörf á 30 milljóna króna framlagi vegna undirbúnings fyrir slíkan leikvang. „Skýrsla starfshóps um þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir liggur fyrir. Í stjórnarsáttmála er fjallað um að halda áfram að undirbúa þau verkefni. Næstu skref hvað inniíþróttaleikvang varðar eru viðræður um framkvæmdina, staðsetningu, stærð og mögulega kostnaðarskiptingu.“
Heildarkostnaður við byggingu þjóðarleikvangs fyrir inniíþróttir er áætlaður, samkvæmt skýrslu starfshóps sem birt var í fyrra, á bilinu 7,9 til 8,7 milljarðar króna. munurinn felst í því hvort húsið eigi að taka fimm þúsund eða 8.600 áhorfendur.
Mikið rætt en lítið gerst
Mikið hefur verið rætt um uppbyggingu nýrra þjóðarleikvanga fyrir bæði inniíþróttir og knattspyrnu og margir með væntingar til þess að ráðist verði í slíka uppbyggingu sem fyrst. Staðan er enda þannig að Laugardalshöllin stenst ekki alþjóðlegar kröfur og gólfflötur hennar er ónýtur. Fyrir vikið neyddist körfuboltalandslið Íslands nýverið til að spila heimaleik við Rússland þar frekar en hér.
Hópurinn skoðaði tvo valkosti annars vegar völl fyrir um 17.500 áhorfendur með yfirbyggðum áhorfendastæðum en opnu þaki yfir leikvellinum. Hins vegar kostur B sem er fjölnota mannvirki fyrir um 20 þúsund áhorfendur með þaki yfir leikvellinum sem hægt er að opna og loka eftir þörfum. Kostnaður var metinn á sjö til 18 milljarða króna.
Fulltrúar KSÍ, Reykjavíkurborgar og ríkisins undirrituðu svo stofnsamning félags sem á að starfa að undirbúningi að mögulegri uppbyggingu hans um mitt ár 2019.
Til viðbótar er stefnt að byggingu nýs þjóðarleikvangs í frjálsum íþróttum. Allir leikvangarnir eiga það allir sameiginlegt að vera enn ófjármagnaðir.
Boðaði nýjan þjóðarleikvang á kjörtímabilinu
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, er með málin á sinni könnu innan ríkisstjórnarinnar.
Hann sagði í umræðuþættinum Pallborðinu á Vísi þann 9. desember síðastliðinn að uppbygging þjóðarleikvanga væru eitt af þeim verkefnum sem væru efst á hans lista á þessu kjörtímabili. „Ég reikna með því að mitt fyrsta mál sem ég fer með inn í ríkisstjórn varði þetta mál. Fyrsti fundurinn sem ég tók sem ráðherra var með ÍSÍ og sérsamböndunum í gær. Það er líka til að undirstrika mikilvægi þessa málefnaflokks."
Þar sagði Ásmundur Einar einnig að dregið gæti til tíðinda í málinu í desember. „Minn hugur stendur nú til þess að á þessu kjörtímabili geti maður farið á heimaleiki á nýjum þjóðarleikvangi.“