Kosningarnar í Bretlandi í gær voru einar þær sögulegustu sem farið hafa fram í landinu. Hinn óvænti hreini meirihluti Íhaldsmanna og stórsigur Skoska þjóðarflokksins (SNP) í Skotlandi, þar sem hann hirti 56 af 59 sætum á breska þinginu, gerði það að verkum að mörg stór nöfn í breskum stjórnmálum töpuðu sætum sínum. Og eðlilega voru þingmennirnir flestir í framboði fyrir þá tvo flokka sem biðu afhroð í þingkosningunum, Verkamannaflokkinn og Frjálslynda demókrata. Business Insider tók saman lista yfir þá tíu stærstu.
Jo Swinson
Jo Swinson er atvinnumálaráðherra Frjálslyndra demókrata. Hún tapaði sæti sínu til SNP, en einungis með um tvö þúsund atkvæðum. Swinson hafði verið spáð miklum frama og þótti líkleg sem næsti formaður Frjálslyndra demókrata. Sá draumur virðist úti, að minnsta kosti um sinn.
Ed Davey
Ed Davey er orkumálaráðherra Frjálslyndra demókrata. Hann hafði setið á þingi frá árinu 1997. Hann tapaði sæti sínu til Íhaldsflokksins.
Simon Hughes
Simon Hughes er dómsmálaráðherra og hafði setið í 32 ár á þingi fyrir Frjálslynda demókrata. Hann missti sætið sitt, ótrúlegt en satt, til frambjóðanda Verkamannaflokksins.
David Laws
David Laws.
David Laws er menntamálaráðherra Frjálslyndra demókrata. Kjördæmi hans, Yeovil, hefur áratugum saman verið mjög sterkt vígi flokksins og sá sem sat í því á undan honum var Paddy Ashdown, fyrrum formaður Frjálslyndra demókrata. Nú vermir Íhaldsþingmaður sætið.
Laws vann í fjárfestingabanka áður en hann tók sæti á þingi. Hann var einn þeirra þingmanna sem voru harkalega gagnrýndir eftir að uppljóstrað var um óhoflega nýtingu þeirra á kostnaðargreiðslum.
Jim Murphy
Jim Murphy hefur verið leiðtogi Verkamannaflokksins í Skotlandi í tæpt ár. Hann, líkt og 40 aðrir þingmenn flokksins í Skotlandi, misstu starfið sitt í kosningunum. Sæti hans fór auðvitað til SNP.
Esther McVey
Esther McVey er atvinnumálaráðherra Íhaldsflokksins og eina stóra nafn þess flokks sem féll í kosningunum í gær. Henni hafði verið spáð enn meiri frama innan flokksins en sá frami verður líkast til að bíða um sinn. Enda situr hún ekki lengur á þingi.
Danny Alexander
Danny Alexander hefur sinnt undirráðherraembætti í fjármálaráðuneytinu og situr á þingi fyrir Frjálslynda demókrata. Hann var hluti af fjögurra manna valdateymi innan síðustu ríkisstjórnar sem mótaði ákvörðunartöku í stórum málum, ásamt David Cameron forsætisráðherra, fjármálaráðherranum George Osborne og Nick Clegg, fráfarandi leiðtoga Frjálslyndra demókrata. Alexander var hins vegar þeirra ógæfu aðnjótandi að vera þingmaður kjördæmis í Skotlandi, og að sjálfsögðu hirti frambjóðandi SNP sæti hans.
Douglas Alexander
Mhairi Black.
Douglas Alexander var utanríkisráðherra í skuggaráðuneyti Verkamannaflokksins, og hefði orðið utanríkisráðherra ef flokkur hans hefði endað í ríkisstjórn. Semsagt mjög stór pólitískur leikari. Alexander tapaði sæti sínu í Skotlandi til Mhairi Black, tvítugs frambjóðanda SNP, sem fyrir vikið varð yngsti þingmaður Bretlands í mörg hundruð ár.
Vince Cable
Vince Cable var ráðherra viðskipta í innanríkisráðuneytinu og sat á þingi fyrir Frjálslynda demókrata. Hann er líklega stærsta nafn flokksins sem missti sæti sitt, enda oft verið nefndur sem mögulegur næsti formaður hans. Cable tapaði sæti sínu til frambjóðanda Íhaldsflokksins.
Ed Balls
Ed Balls er fjármálaráðherra í skuggaráðuneyti Verkamannaflokksins og hefði orðið fjármálaráðherra Bretlands ef flokkur hans hefði komist í stjórn. Semsagt næst stærsta pólitíska stærðin innan flokksins á eftir Ed Milliband, nú fráfarandi formanni hans. Balls hefur verið mjög áberandi í breskum stjórnmálum árum saman og var lykilmaður í teyminu á bakvið Gordon Brown þegar sá var fjármálaráðherra. Hann er í raun búin að vera í fremstu viglínu breskra stjórnmála í meira en áratug og mjög áhrifamikill. Nú er hann atvinnulaus.