Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marels var tekjuhæsti forstjórinn á Íslandi árið 2020 með tæpar 36 milljónir á mánuði, samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar. Árni Harðarson forstjóri Salt Investments vermir annað sætið með rúmar 26 milljónir króna á mánuði í tekjur og Tómas Már Sigurðsson forstjóri HS Orku var með 19,9 milljónir í þriðja sæti.
Tekjublaðið, þar sem tekjur 4.000 Íslendinga eru opinberaðar á grundvelli upplýsinga á greiddu útsvari samkvæmt álagningarskrám Ríkisskattstjóra (RSK), kom út í dag. Í blaðinu er settur sá fyrirvari að um sé að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2020 og þurfi þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi.
„Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2019, sem greiddur var árið 2020. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum úr lífeyrissjóði. Hafa verður í huga að inni í tekjunum getur líka verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignarsparnaði hjá lífeyrissjóði,“ segir í blaðinu.
Tíu tekjuhæstu forstjórarnir voru með samtals 176,9 milljónir í tekjur á mánuði árið 2020 og voru átta af þeim með yfir 12 milljónir. Tuttugu forstjórar voru með yfir sex milljónir.
Á eftir þeim Árna Oddi, Árna og Tómasi Má koma Rupert John Horrocks framkvæmdastjóri Kaupþings með 19,5 milljónir í tekjur á mánuði og Grímur Karl Sæmundsson forstjóri Bláa lónsins með 17,8 milljónir á mánuði í tekjur.