Undanfarið hefur talsvert verið um það deilt hvort tónlistarfólk sem skemmtir á útitónleikum í Tívolí í Kaupmannahöfn megi auka styrkinn í hátölurunum úr 60 desibilum í 65. „Algjör nauðsyn,“ segir tónlistarfólkið, „60 desibil er meira en nóg,“ segja nágrannar skemmtigarðsins sem segja leirtauið í eldhúsinu glamra á hverju föstudagskvöldi.
Allir sem hafa komið í Tívolí í Kaupmannahöfn (það gerðu 4,5 milljónir í fyrra) vita að þar er iðulega mikill kliður og jafnvel hávaði. Kvenþjóðin lætur vel í sér heyra þegar rússíbaninn tekur dýfurnar, karlkyns ofurhugarnir kalla slík andköf píkuskræki og bretta sjálfir niður ermarnar til að fela gæsahúðina. Þetta eru þó smámunir miðað við flugeldasýningarnar á laugardagskvöldum, nánar tiltekið þegar klukkuna vantar stundarfjórðung í miðnætti. Þá þýðir lítið fyrir nágranna skemmtigarðsins að reyna að halda uppi samræðum, nema þeir séu því slyngari í varalestri. Flugeldaskothríðin stendur yfir í um það bil fimmtán mínútur. Sagan endurtekur sig viku síðar og þannig gengur það allt sumarið, öll laugardagskvöld.
Föstudagstónleikarnir
Fyrir átján árum, árið 1997, datt einhverjum í stjórn Tívolís í hug að upplagt væri að efna til föstudagstónleika á stóra opna svæðinu, Plænen, skammt innan við aðalinnganginn á Vesterbrogade. Þar yrði boðið uppá fjölbreytta tónlist, einkum danska en líka erlenda, af léttara taginu enda fylgdi uppástungunni að þetta skyldi kallað „fredagsrock.“
Skemmst er frá því að segja að stjórn skemmtigarðsins þótti hugmyndin frábær og lét ekki sitja við orðin tóm. Þessir tónleikar, sem í langflestum tilvikum eru innifaldir í aðgangseyrinum að Tívolí, hafa notið sívaxandi vinsælda og í sumar verða föstudagstónleikarnir samtals 24 talsins. Þeir byrja klukkan tíu að kvöldi og standa í klukkutíma eða svo.
Auk þess eru stundum, fyrir utan föstudagskvöldin, tónleikar á Plænen sem sérstaklega er selt inn á. Meðal þeirra sem halda slíka tónleika í sumar má nefna Mark Knopfler og Elton John. Þeir sem ekki kaupa miða á slíka tónleika geta séð í nokkurri fjarlægð frá sjálfu sviðinu á stórum skermum það sem fram fer. Og heyrt.
Dönsku Olsen-bræðurnir, sem sigruðu Eurovision söngvakeppnina árið 2000, eru á meðal þeirra sem hafa troðið upp í Tívolí. Mynd: EPA
Hvað er hæfilega hátt?
Það er þetta, að heyra, sem valdið hefur deilum. Þegar aðsóknin að tónleikunum er orðin jafn mikil og raun ber vitni (500 þúsund í fyrra) gefur auga leið að ekki geta allir verið nálægt sviðinu. Þetta hefur orðið til þess að margir, þar á meðal listamennirnir, hafa kvartað sáran yfir að mega ekki skrúfa upp í „græjunum.“
Stjórnendur Tívolís hafa tekið undir þetta og óskuðu eftir leyfi borgarstjórnarinnar til að auka hljóðstyrkinn um 5 desibil, úr 60 desibilum í 65. Mælingin fer fram eftir sérstökum reglum, desibilafjöldinn miðast við ákveðna fjarlægð frá sviðinu. Borgarstjórn tók vel í erindið en lögum samkvæmt skal leitað umsagnar nágranna í tilvikum sem þessum.
Nágrannar ósáttir
Nágrönnum var ekki skemmt yfir þessum hugmyndum. Bentu á að flugeldasýningarnar á laugardagskvöldum og svo föstudagsrokkið valdi miklu ónæði. Ekki sé þá viðlit að tala saman eða fylgjast með útvarpi og sjónvarpi.
Maður sem býr í næsta nágrenni bauð borgarstjóranum að koma í heimsókn eitt föstudagskvöldið „þar getum við þagað saman meðan tónleikarnir standa yfir,“ stóð í boðsbréfinu. Borgarstjórinn þáði ekki boðið.
Bentu á aðra möguleika
Nágrannar skemmtigarðsins hafa bent á ýmsa möguleika varðandi opna svæðið. Einn er sá að breyta Plænen í eins konar skál. Þannig yrði sviðið og áhorfendasvæðið neðar og það myndi, að mati nágrannanna, draga úr hávaðanum í kringum Tívolí. Önnur hugmynd er sú að færa sviðið í hinn endann á Plænen, þá myndi hljóðið berast meira um Tívolí svæðið sjálft.
Hvorug hugmyndin kemur til greina að mati stjórnar skemmtigarðsins. Stjórnin segist hinsvegar skilja sjónarmið nágrannanna, augljóst sé að frá svæði eins og Tívolí berist hávaði en benda jafnframt á að þar sé öllum reglum fylgt.
Fá leyfi til að hækka en líka skipun um að lækka
Þrátt fyrir mótmæli nágrannanna fékk Tívolí leyfi til að auka hljóðstyrkinn um 5 desibil. Þetta leyfi gildir þó aðeins um tíu tónleika af þeim sem ráðgerðir eru á Plænen í sumar, fyrir hina gildir áfram 60 desibila reglan.
Á móti hefur stjórn Tívolís skuldbundið sig til að draga aðeins úr rakettuskothríðinni. Nágrannarnir eru ekki ánægðir með þessi málalok en geta fátt gert. Sá sem boðið hafði borgarstjóranum í heimsókn sagði í viðtali við danskt dagblað að „það kæmi sér vel að eyrnatappar væru á hóflegu verði.“