Eygló Harðardóttir, ráðherra húsnæðismála, hefur gert máttlitlar tilraunir til þess að breyta húsnæðismálakerfinu á þessu kjörtímabili. Tíðindin sem bárust af nýjustu vendingum í þeim efnum, í gær, verða að teljast svolítið óvænt. Efnahags- og fjármálaráðuneytið svaraði fyrirspurn Kjarnans varðandi þessi mál, og vinnu við mat á áhrifum frumvarps ráðherra.
Málið sem um ræðir varðar stofnstyrki til félagslegra leiguíbúða, en nú er komið upp úr krafsinu að frumvarp ráðherra var dregið til baka í lok apríl, og er ólíklegt að annað komi fram á vorþingi, samkvæmt svörum efnahags- og fjármálaráðuneytisins.
Eygló hefur sagt að frumvarp hennar, um það sem að framan greinir, muni koma fram á þessu þingi, og hefur hún meðal annars sagt, að efnisatriðin gætu verið innlegg í kjaradeilur og varðað hagsmuni margra þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref á fasteignamarkaði. Meðal annars af þessum ástæðum hafa margir beðið þess að frumvarpið kæmi fram, og þá beðið með skuldbindingar á meðan.
Nú er komið í ljós, að þetta var ekki nándar nærri tilbúið mál hjá Eygló, samkvæmt svörum efnahags- og fjármálaráðuneytisins, og nær útilokað var að það gæti af þeim sökum orðið að innleggi í harðar kjaradeilur. Eygló hefur reyndar sjálf hafnað þessu, sem þýðir að ráðherrarnir Bjarni Benediktsson og Eygló, eru augljóslega ekki sammála um hversu langt málið er komið. Raunar virðist vera bullandi ágreiningur um málið, eins og ólík svör ráðuneytanna bera með sér.
Eygló þarf augljóslega að svara fyrir þetta, því þessi bið eftir engu hefur valdið fölskum væntingum á fasteignamarkaðnum, og hugsanlega hefur einhver trúað því að þetta gæti orðið innlegg í kjaraviðræður. Þó líklega sé það nú ekki stór hópur...