Leigubílar Hreyfils/Bæjarleiða skarta bleikum höttum í október, en uppátækið er liður í Bleiku slaufunni; árveknis- og fjáröflunarátaki Krabbameinsfélags Íslands. Er þetta sjötta árið í röð sem bifreiðastöðin tekur þátt í átakinu með þessum hætti. Auk þess að selja Bleiku slaufuna, renna tólf krónur af hverri pantaðri ferð með "bleikum" leigubílum til átaksins.
Árið 2010 runnu tíu krónur af hverri pantaðri ferð með bleikum leigubíl til Bleiku slaufunnar, en það ár nam styrkur Hreyfils/Bæjarleiða til átaksins 1,1 milljón króna, en auk þess seldu leigubílstjórarnir yfir 4.400 bleikar slaufur.
Tíu króna upphæðin hélst óbreytt árið eftir, en þá hlaut Krabbameinsfélagið 1,2 milljónir í styrk frá bifreiðastöðinni vegna pantaðra ferða með bleikum leigubílum. Það ár seldu auk þess leigubílstjórarnir yfir 3.800 slaufur.
Styrkupphæð Hreyfils/Bæjarleiða til Bleiku Slaufunnar árið 2012 hljóðaði upp á 1,4 milljónir króna, en þá runnu tólf krónur af hverri pantaðri ferð með bleikum leigubíl til fjáröflunarátaksins. Þá seldust jafnframt 3.800 slaufur í leigubílunum.
Í fyrra runnu sömuleiðis tólf krónur af hverri pantaðri ferð með bleikum bíl til Bleiku slaufunnar, og styrkupphæðin var sú sama og árið áður, eða 1,4 milljónir króna. Í fyrra seldu bílstjórar bleiku leigubílanna um 3.300 slaufur.
Miðað við tólf krónu upphæðina, sem Bleika slaufan fær í sinn hlut vegna hverrar pantaðrar ferðar með bleikum leigubíl á þessu ári, þurfa bleikir leigubílar Hreyfils/Bæjarleiða að fara hátt í 117 þúsund pantaðar ferðir til að safna álíka upphæð fyrir Bleiku slaufuna og í fyrra.