Sjávarútvegsfyrirtækið Samherji á ekki lengur stjórnarmann í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).
Þetta hefur vakið athygli, enda er fyrirtækið eitt það stærsta í íslenskum sjávarútvegi og hefur átt fulltrúa vísan í stjórn hagsmunasamtakanna í krafti atkvæðamagns síns á aðalfundum, en því stærri sem fyrirtæki eru, því meiri áhrif hafa þau þegar kemur að kosningum innan samtakanna.
Hvað klikkaði þá?
Samkvæmt tölvupósti sem Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs og annar fyrrverandi helsti eigandi Samherja sendi á hóp fólks innan Samherja síðdegis á föstudag var það kosningakerfið á aðalfundinum, sem fram fór á Zoom.
„Það hefur komið fram í fjölmiðlum að fulltrúi Samherja féll úr stjórn, ástæðan er að kerfið sem notað var til að kjósa virkaði ekki og þess vegna fékk okkar maður ekki okkar atkvæði sem annars nægja vel til að fá mann í stjórn,“ sagði í tölvupósti frá Kristjáni til starfsmanna fyrirtækisins.
Við tölvupóst hengdi hann nánari útskýringar á því sem hann segir hafa farið úrskeiðis, sem höfðu verið sendar á stjórnarmenn og starfsmenn SFS ásamt kröfu um rannsókn á því að svo fór sem fór.
Tókst ekki að setja atkvæði Samherja á fulltrúa félagsins
Samkvæmt tölvupósti Kristjáns fór hann á fundinn á föstudagsmorgun með umboð til að greiða atkvæði fyrir hönd Samherja og dótturfélaganna Samherja Fiskeldis og Útgerðarfélags Akureyringa.
Honum tókst að skipta atkvæðum tveggja minni fyrirtækjanna niður á nokkra aðila í stjórnarkjörinu, en þegar kom að því ráðstafa þeim 416.988 atkvæðum sem Samherji Íslands hafði til umráða hljóp snurða á þráðinn.
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Kristjáns til þess að setja öll atkvæði Samherja á einn mann og leiðbeiningar tæknimanns um að „haka bara við viðkomandi aðila“ og „ekki setja á hann nein atkvæði því hann fengi öll atkvæðin sjálfkrafa“ gekk það ekki, atkvæðum Samherja var að endingu ekki ráðstafað í kjörinu og stjórnarsætið tapaðist.
Ekki samþykkt að kjósa aftur
Í tölvupósti Kristjáns á föstudag sagði að útgerðarfyrirtækið Nesfiskur í Garði hefði lent í svipuðum tæknilegum erfiðleikum við atkvæðagreiðsluna, misst sinn mann úr stjórn og óskað eftir því að kosið yrði á ný.
Þá beiðni hefðu Samherji og Ísfélag Vestmannaeyja stutt, en það hefði ekki dugað til, því aðeins tæp 60 prósent atkvæðabærra hefðu samþykkt að kosið yrði aftur og samkvæmt samþykktum SFS þurfi 75 prósent atkvæðamagns til þess að knýja fram endurkjör á aðalfundi.
Bergur Þór Eggertsson, aðstoðarframkvæmdastjóri og framkvæmdastjóri útgerðarsviðs hjá Nesfiski, vildi ekkert ræða málið við blaðamann þegar eftir því var leitað.
Í tölvupósti Kristjáns til starfsmanna Samherja sagði að eigandi Nesfisks væri „alvarlega að íhuga að hætta í þessum samtökum“ en hann sjálfur væri „ekki þar, allavega ekki núna.“
Hann sagði sömuleiðis viðbúið að fjölmiðlar myndu „gera sér mat úr“ stjórnarkosningunni og því að Samherji ætti ekki lengur fulltrúa í stjórninni.
SFS neitaði fyrir tæknilega vankanta
Fram kom í frétt á vef mbl.is á föstudaginn að Samherji hefði farið fram á að kosningakerfi fundarins yrði rannsakað og upplýst yrði um niðurstöður þeirrar rannsóknar.
Í tölvupósti frá Kristjáni sem Kjarninn hefur séð kemur hið sama fram, en Samherji veitti mbl.is einnig þær upplýsingar að atkvæðamagn Samherja ætti að vera nægt til þess að tryggja 1,6 stjórnarmenn í stjórn SFS.
Frétt mbl.is, sem birtist á sjávarútvegssíðu miðilsins, var uppfærð um klukkustund eftir að hún birtist með svörum frá upplýsingafulltrúa SFS þess efnis að búið væri að kanna hvort eitthvað hefði farið tæknilega úrskeiðis í atkvæðagreiðslukerfinu.
Hefðu hnökrar átt sér stað við atkvæðagreiðsluna hefðu þeir ekki snúið að tæknilegri framkvæmd atkvæðagreiðslunnar, samkvæmt svari upplýsingafulltrúa hagsmunasamtakanna sem mbl.is vísaði til.
Kjarninn falaðist í gær eftir því að ræða þetta mál nánar við Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur framkvæmdastjóra SFS. Ekki hefur verið brugðist við þeirri beiðni.