Tony Blair, fyrrverandi leiðtogi breska Verkamannaflokksins og forsætisráðherra Bretlands, segir að flokkurinn sem hann eitt sinn leiddi þurfi á algjörri endurnýjun að halda, ætli hann sér að lifa af. „Hann þarf algjört niðurbrot og enduruppbyggingu. Ekkert annað mun duga,“ sagði Blair í ritgerð sem hann setti fram í breska tímaritinu New Statesman í vikunni og hefur fengið mikið umtal þar í landi.
Þar fór hann yfir stöðu flokksins og setti hana í samhengi við hnignandi stöðu afla vinstra megin við miðju annars staðar í Evrópu. „Stjórnmálaflokkar eiga engan guðdómlegan tilverurétt og umbótaflokkar á miðjunni og vinstra megin við miðju standa frammi fyrir jaðarsetningu, jafnvel útrýmingu, í hinum vestræna heimi,“ skrifaði Blair. Hann varar við því að horft sé á sigur demókratans Joe Biden í Bandaríkjunum sem einhvern sigur vinstrisins. Biden hafi jú verið að takast á við Donald Trump.
Grein Blair er innlegg inn í umræðu um stöðu mála hjá Verkamannaflokknum, sem tapaði þingsæti sínu í Hartlepool í fyrsta sinn í áratugi er gengið var til aukakosninga í upphafi mánaðar. Viðbrögð leiðtogans Keir Starmer voru á þann veg að stokka upp í ábyrgðarstöðum innan flokksins og játa að flokkurinn hefði gengið úr takti við og glatað trausti vinnandi fólks.
Stjórnmálaskýrendur hafa sumir bent á það á móti að góður gangur í bólusetningum og nýlegar tilslakanir á hömlum daglegs lífs verið vatn á myllu Íhaldsflokksins, sem hreppti þingsætið. Enn aðrir hafa haldið því fram að frambjóðandi Verkamannaflokksins, Paul Williams, hafi verið sá versti sem mögulegt var að tefla fram í ljósi þess að hann kom að því að leggja niður bráðamótttöku sjúkrahússins í Hartlepool og var mjög á móti útgöngu Breta úr Evrópusambandinu – sem er ekki vinsæl skoðun í kjördæminu.
Segir það sjálfsmark að leyfa þeim róttækustu að leiða umræðuna
Blair kemur því á framfæri í greininni í New Statesman að mikill vandi steðji að Verkamannaflokknum, sem kristalli vanda hefðbundinna afla á miðjunni og vinstra megin við hana beggja vegna Atlantshafs.
Vandinn snúist ekki síst um skort á bæði trúverðugum og heillandi skilaboðum í efnahagsmálum og afstöðu til umdeildra samfélagsmála sem höfði til fjöldans, í stað þess að leyfa þeim sem eru mest „woke“ — og hafa hæst í umræðunni —að tala fyrir flokkana.
Blair segir að rétta leiðin fyrir umbótaöfl sé að stíga fram með hófsamari hætti í umræðunni um samfélagsmál, ekki úthrópa þá sem eru á öndverðri skoðun, heldur „leita sameiningar“ og forðast slagorðapólitík, enda hafi það sýnt sig að hægrið vinni þann slag þegar leikar æsast í menningarstríðinu.
„Og þegar þau verða sökuð um að sýna málstöðunum ekki nægilegan stuðning — sem er óhjákvæmilegt — að verja sig og koma því skýrt á framfæri að þau muni ekki láta neyða sig til þess að sveigja af leið,“ ritar Blair.
Þetta, segir hann, mun kosta fá atkvæði hjá „minnihluta með háværar raddir“ en hins vegar binda hina stóru en oft þöglu miðju við flokka vinstra megin við miðju.
Hvað efnahagsmálin varðar segir Blair, sem sjálfur leiddi Verkamannaflokkinn mikið til hægri efnahagslega á þeim tíu árum sem hann var forsætisráðherra frá 1997-2007, að flokkar á miðjunni og vinstri ættu að forðast hefðbundin skilaboð um háa skatta og „stórt ríkisvald“ sem ætli sér mikil fjárútlát.
Hann heldur því fram að heimurinn sé að breytast hratt með öllum þeim tæknibreytingum sem séu að eiga sér stað. Nýi heimurinn þurfi ekki „stórt ríki“ sem slíkt, heldur ríkisvald sem sé virkt og „gott í að leysa vandamál“, stuðla að félagslegri aðild og virkja krafta atvinnulífsins.
Vill hann leiða á ný?
Hverju nákvæmlega Tony Blair vill ná fram með þessu ákveðnu skrifum sínum um flokkinn sem hann leiddi í rúman áratug liggur ekki alveg ljóst fyrir.
Einn dálkahöfunda New Statesman segir, með vísan í samtal við persónulegan vin Blairs, að hann sé með þessu að lýsa sig reiðubúinn til þess að snúa aftur í framlínu stjórnmálanna og leiða Verkamannaflokkinn á ný. Hvort það sé raunhæft sé hins vegar annað mál.