Traust til íslensku ríkisstjórnarinnar þegar kemur að því að takast á við efnahagsleg áhrif COVID-19 hefur minnkað og hefur aldrei mælst minna. Rúmlega helmingur treystir henni vel til verksins.
Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup.
Fjórðungur landsmanna treystir ríkisstjórninni illa til þess að takast á við efnahagsleg áhrif COVID-19, eða 24 prósent. Það er mun meira en nokkru sinni áður en 15 prósent treystu henni illa í apríl síðastliðnum.
Spurt var: Hversu vel eða illa treystir þú íslensku ríkisstjórninni til að til að takast á við efnahagsleg áhrif COVID-19?
Fram kemur hjá Gallup að ríflega helmingur treysti henni vel, eða 55 prósent. Það hlutfall hefur ekki verið lægra frá því að mælingar Gallup á viðhorfi fólks vegna faraldursins hófust. Til samanburðar treystu 67 prósent landsmanna ríkisstjórninni vel í apríl.
Í könnuninni kemur einnig fram að traust til almannavarna og heilbrigðisyfirvalda á Íslandi þegar kemur að því að takast á við COVID-19 hafi minnkað og nú treysta 28 prósent þjóðarinnar heilbrigðisyfirvöldum fullkomlega. 87 prósent treysta þeim vel.
Könnunin var framkvæmd dagana 12.-24. ágúst 2021 og var úrtakið 1.622 manns, 18 ára og eldri. Fjöldi svarenda var 837.