Alls bera 36 prósent landsmanna traust til Alþingis samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup sem mælir árlega traust til stofnanna samfélagsins. Það eykst um tvö prósentustig milli ára og hefur aukist um 18 prósentustig á þremur árum. en Alþingi er samt sem áður í fjórða neðsta sæti yfir þær stofnanir sem almenningur treystir minnst. Traustið hefur enn ekki náð þeim hæðum sem það var í fyrir bankahrun, en í síðust mælingu Gallup fyrir það, sem framkvæmd var snemma árs 2008, mældist traust þjóðarinnar til Alþingis 42 prósent.
Fyrir neðan Alþingi eru einungis annað stjórnvald, borgarstjórn Reykjavíkur (21 prósent traust), bankakerfið (23 prósent) og þjóðkirkjan (29 prósent). Allar þrjár stofnanirnar tapa trausti á milli ára. Traust til borgarstjórnar, sem lækkar um eitt prósentustig milli ára, er þó enn nokkuð meira en það var 2020 (17 prósent) og miklu meira en það mældist snemma árs 2008, þegar það mældist níu prósent. Það er í eina skiptið sem stjórnvald hefur mælst með undir tíu prósent traust í mælingum Gallup. Þá hafði gengið mikið á í borgarstjórn en alls fjórir meirihlutar sátu við völd það kjörtímabil.
Traustið lagaðist hægt og rólega og árin 2014 og 2015, við lok borgarstjórnarferils Jóns Gnarr og við upphaf borgarstjórnarferils Dags B. Eggertssonar, mældist það 31 prósent.
Það hefur oftast nær dalað á undanförnum árum og er þá þróun ugglaust hægt að rekja til harðvítugra átaka meirihluta og minnihluta á vettvangi borgarstjórnar um flest mál sem þangað rata.
Mest dregst traustið saman gagnvart Seðlabanka Íslands, um tíu prósentustig milli ára og nú treysta 52 prósent honum vel. Það er breyting frá þeirri þróun sem orðið hafði árin áður. Milli áranna 2019 og 2021 tvöfaldaðist það og mældist í lok þess síðarnefnda 61 prósent. Þetta gerðist samhliða seðlabankastjóraskiptum sem urðu árið 2019 þegar Ásgeir Jónsson tók við starfinu af Má Guðmundssyni, sem hafði gegnt því í áratug. Auk þess var Fjármálaeftirlitið sameinað Seðlabankanum í byrjun árs 2020. Stýrivextir lækkuðu mikið framan af stjórnartíð Ásgeirs og voru 0,75 prósent, sem er það lægsta sem þeir höfðu nokkru sinni verið, í upphafi síðasta árs. Sú lækkunarhrina leiddi til þess að fjármagnskostnaður heimila og fyrirtækja hefur lækkað mikið. Stóraukin verðbólga, sem nú stendur í 6,2 prósent, hefur hins vegar leitt af sér skarpa hækkun á stýrivöxtum með tilheyrandi viðbótarkostnaði fyrir heimili og fyrirtæki. Þeir eru nú 2,75 prósent.
Heilbrigðiskerfið og forsetinn tapa trausti
Traust til heilbrigðiskerfisins dregst líka umtalsvert saman milli ára, um átta prósentustig, en er samt sem áður 71 prósent. Sömu sögu er að segja um traust til embættis forseta Íslands, sem Guðni Th. Jóhannesson gegnir. Nú segjast 73 prósent landsmanna treysta því embætti sem er sjö prósentustigum minna en í fyrra. Þá var forsetaembættið í öðru sæti yfir þær stofnanir sem fólk treysti best en það fellur nú niður í fjórða sætið.
Dómskerfið tapar líka umtalsverðu trausti milli ára, alls sex prósentustigum, og nú segjast 40 prósent landsmanna bera mikið traust til þess.
Sú stofnun sem bætir við sig mestu trausti milli ára er lögreglan, en alls segjast 78 prósent landsmanna treysta henni vel. Það er sjö prósentustigum meira en í fyrra. Landhelgisgæslan hefur árum saman verið sú stofnun sem nýtur mest trausts í samfélaginu og á því er engin breyting nú. Alls segjast 87 prósent aðspurðra í könnun Gallup að þeir beri mikið traust til hennar, sem er einu prósentustigi meira en í fyrra.
Eina stofnunin sem stendur í stað á milli ára í traustmælingunni er Háskóli Íslands. Hann er í þriðja sæti yfir þær stofnanir sem þjóðin treystir best og nýtur trausts alls 77 prósent landsmanna.