Auðkýfingurinn Donald Trump leiðir enn kapphlaupið um útnefningu Repúblikana sem forsetaframbjóðandi flokksins.
Samkvæmt nýrri skoðanakönnun CNN fréttastöðvarinnar sem birt var í dag, sögðust 18 prósent aðspurðra kjósenda Repúblikana styðja Trump og þá nýtur Jeb Bush stuðnings 15 prósenta aðspurðra. Scott Walker, ríkisstjóri Wisconsin, kom þriðji með tíu prósenta stuðning.
Fylgi Trumps jókst um heil sex prósentustig frá síðustu könnun CNN, sem framkvæmd var í síðasta mánuði, á meðan fylgi keppinauta hans hefur haldist stöðugt.
Þrátt fyrir niðurstöður skoðanakannanna er alls óvíst hvort Trump hlýtur útnefningu Repúblika sem forsetaframbjóðandi flokksins, en miðað við fylgi hans í skoðanakönnunum virðist hann njóta töluverðra vinsælda á meðal flokkssystkinna sinna. Þá vilja 52 prósent aðspurðra Repúblikana að Trump fari alla leið, og þá vilja 42 prósent stuðningsmanna annarra frambjóðenda að Trump haldi áfram kosningabaráttunni.
Í skoðanakönnun NBC sjónvarpstöðvarinnar sem framkvæmd var á meðal kjósenda í New Hampshire, og var sömuleiðis birt í dag, nýtur Trump stuðnings 21 prósents aðspurðra Repúblikana. Þar styðja ennfremur 14 prósent Bush og 12 prósent myndu kjósa Walker.
Í samskonar könnun NBC í Iowa leiðir Walker kosningabaráttuna með 19 prósent, og Trump nýtur stuðnings 17 prósenta aðspurðra kjósenda Repúblikanaflokksins.
Þá sýnir enn ein skoðanakönnunin hversu vel Trump stendur að vígi, en samkvæmt könnun YouGov nýtur bandaríski fasteignamógúllinn stuðnings 28 prósenta kjósenda Repúblikanaflokksins á landsvísu.
Eins og áður segir bætir Trump við fylgi sitt á milli skoðanakannanna, og það þrátt fyrir gríðarlega umdeild ummæli sín um John McCain, þegar hann sagði að öldungadeildarþingmaðurinn væri ekki stríðshetja.