Milljarðamæringurinn og forsetaframbjóðandinn Donald Trump er hvergi nærri hættur í stórum fullyrðingum og yfirdrifnu tali, þrátt fyrir að undanfarnar vikur hafi hann verið mjög mikið gagnrýndur, sérstaklega fyrir það hvernig hann talar um innflytjendur í Bandaríkjunum.
Trump hélt ræðu fyrir stuðningsmenn sína í Phoenix í gærkvöldi þar sem hann talaði í yfir klukkustund, meðal annars um það hvað hann sjálfur væri klár. „Þögli meirihlutinn er kominn aftur og við ætlum að endurheimta þetta land. Við ætlum að gera Bandaríkin frábær á ný,“ sagði hann í tengslum við innflytjendamál. Hann sagðist lofa því að sekta Mexíkó um hundrað þúsund dollara fyrir hvern einstakling sem kæmi ólöglega til Bandaríkjanna. Það yrði að stöðva ólöglega innflytjendur og hann væri frambjóðandinn sem myndi gera það. Hann sagðist líka geta „rústað“ Íslamska ríkinu með auknum herafla.
Hópur fólks sem hlustaði á ræðuhöldin voru mótmælendur sem settu upp borða sem á stóð „hættu hatrinu“ þegar Trump talaði um innflytjendur. Stuðningsmenn hans umkringdu mótmælendurnar og öryggisverðir þurftu að grípa inn í. Trump sjálfur brást við mótmælunum með því að spyrja hvort mexíkósk yfirvöld hefðu sent mótmælendurna. „Ég held það. Engar áhyggjur, við tökum landið okkar til baka,“ sagði hann svo við stuðningsmenn sína.
Trump hefur undanfarnar vikur tjáð sig mikið um innflytjendamál, meðal annars hefur hann sagt að ólöglegir innflytjendur séu nauðgarar, og ummæli hans hafa vakið mikla reiði. Fjölmörg fyrirtæki hafa hætt viðskiptum við hann. Hann svaraði þessari gagnrýni í ræðu sinni í gær og kallaði fyrirtæki og einstaklinga öllum illum nöfnum fyrir gagnrýnina.
„Fjölmiðlar eru lygarar. Þetta er hræðilegt fólk. Hræðilegt,“ sagði hann líka. „Ekki allir, en margir.“
Andstæðingar hans í Repúblikanaflokknum fengu líka sinn skammt af gagnrýni, ekki síst Jeb Bush, sem Trump sagði hræðilegan og undraðist að þeir væru jafnir í skoðanakönnunum.
Allt útlit er fyrir að Trump verði meðal þeirra frambjóðenda flokksins sem taka þátt í fyrstu kappræðunum fyrir forval Repúblikana, en þær fara fram fyrstu vikuna í ágúst. Valið verður að miklu leyti byggt á niðurstöðum skoðanakannana, en Trump hefur verið að bæta við sig fylgi undanfarið.