Auðkýfingurinn Donald Trump, sem sækist eftir útnefningu Repúblikanaflokksins til embættis forseta Bandaríkjanna, heimsótti landamærin að Mexíkó í dag. Þar neitaði Trump að biðjast afsökunar á nýlegum ummælum sem hann viðhafði um ólöglega innflytjendur, þegar hann fullyrti að stór hluti þeirra væru nauðgarar. Fréttamiðillinn TIME fjallar um málið.
„Þeir voru ekkert móðgaðir,“ sagði Trump aðspurður um hvort hann teldi ummæli sín hafa móðgað spænskumælandi hluta Bandaríkjanna. „Því fjölmiðlarnir snéru út úr orðunum mínum.“
Trump sagði að sér hefði verið vel tekið í heimsókn sinni til bæjarins Laredo í Texas, þar sem yfirgnæfandi meirihluti íbúa eru innflytjendur, en ítrekaði að hann myndi ekki skipta um skoðun sína varðandi byggingu landamæraveggjar á milli Bandaríkjanna og Mexíkó, sem hann hyggst láta síðarnefndu þjóðina borga fyrir verði hann kjörinn forseti.
Hættulegur staður til að vera á
Umkringdur her lífvarða og lögreglumanna fullyrti Trump að það væri ekki heiglum hent að heimsækja landamæri ríkjanna. „Þeir segja að það sé hættulegt, en ég verð að gera þetta,“ sagði auðkýfingurinn litríki við blaðamenn um leið og hann steig frá borði Boeing 757 einkaþotunnar. „Það stafar mikil hætta frá ólöglegum innflytjendum, það stafar gríðarlega mikil hætta frá ólöglegum innflytjendum við landamærin.“
Henry Cuellar, þingmaður Demókrata frá Laredo, sagði í samtali við TIME að ummæli Trump stæðust enga skoðun. „Hann talar um ofbeldi hér, en í Laredo eru framin þrjú morð á hverja 100 þúsund íbúa (2013), en miðað við Washington D.C., þar sem hann langar að fá nýja vinnu, eru framin 16 morð á hverja 100 þúsund íbúa. Og ef þú berð glæpatíðnina í Laredo við New York borg, þar sem hann býr, þá get ég fullyrt að Laredo er mun öruggari staður.“
Farsælast að bjóða sig fram sem Repúblikani
Í Laredo búa 250 þúsund íbúar, en um 95 prósent þeirra eru spænskumælandi. Trump hafði ráðgert að hitta forsvarsmenn landamæraeftirlitsins á flugvellinum í Laredo, en þeir síðarnefndu hættu við fundinn snemma í dag.
Trump var spurður út í hótanir sínar um að bjóða sig fram sem sjálfstæður og óháður forsetaframbjóðandi hljóti hann ekki brautargengi á landsþingi Repúblikanaflokksins. „Ég er Repúblikani. Ég er íhaldsmaður. Ég vil bjóða mig fram sem Repúblikani. Besta leiðin fyrir mig til að vinna er að hljóta útnefningu flokksins.“
Auðkýfingurinn umdeildi hefur fengið vilyrði fyrir því að hann fái að taka þátt í fyrstu kappræðum landsþings Repúblikanaflokksins eftir tvær vikur.
Hér má sjá myndband sem TIME tók saman um heimsókn Trump til Laredo.