Píratar birtu í gær sitt eigið kostnaðarmat á helstu aðgerðunum sem flokkurinn leggur til í kosningabaráttunni. Fjórar helstu útgjaldatillögur sínar verðmátu Píratar á 93,4 milljarða króna, en flokkurinn lagði einnig til tekjuöflunartillögur sem áttu samkvæmt útreikningum flokksins að skila 83,7 milljörðum í ríkissjóð.
Auk þess gerir flokkurinn ráð fyrir því að 9,7 milljarðar skili sér í aukna innheimtu virðisaukaskatts vegna þess að tillögur flokksins auki það fé sem tekjulægra fólk hafi á milli handanna til neyslu.
Í ljós hefur komið að stærsta einstaka tekjuöflunaraðgerðin, 3,75 prósentustiga hækkun efsta tekjuskattsþrepsins, var rangt út reiknuð hjá flokknum, svo skeikar tugum milljarða króna.
Björn Leví Gunnarsson þingmaður flokksins viðurkennir í samtali við Kjarnann að fljótt á litið virðist skekkjan sem sett var fram af hálfu flokksins nema um 25 milljörðum króna hvað þessa aðgerð varðar.
„Ég var kominn með töluna varðandi hækkunina á efra skattþrepinu, hún var eitthvað rétt um 10 milljarðar en ekki 34,“ segir Björn Leví um nýja útreikninga sem nú er verið að vinna í herbúðum Pírata. Hann segir flokkinn hafa treyst gögnunum sem flokkurinn var með í höndunum.
„Við vorum með skjal frá fjármálaráðuneytinu sem skipti niður tekjuskatti á hvern hundraðshluta og vorum að reyna að vinna með það, en ég veit ekki alveg hvernig þetta endaði, þessi upphæð á einstakling,“ segir Björn Leví við blaðamann og af honum má ráða að stuðst hafi verið við rangar forsendur.
„Við erum enn að reyna að komast að því af hverju þetta var rangt til að byrja með,“ segir Björn Leví. „Þetta er bara eins og gengur og gerist þegar maður er að vinna með ónákvæm gögn,“ bætir þingmaðurinn við.
Hann segir Pírata ekki hafa neinar áhyggjur af því að hafa farið fram með ranga útreikninga. Þetta verði bara lagað.
„Ég held að þetta sé hluti af ástæðunni fyrir því að stjórnmálasamtök þora aldrei að setja fram nákvæmar tölur. Út af því að þá koma þau með rangar tölur. En okkur er alveg sama, við fáum gagnrýni á þetta og þá bara lögum við [tölurnar], þetta er ekkert flókið,“ segir Björn Leví.
Hagfræðingur vakti máls á ofmatinu
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur og aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, vakti máls á skekkjunni í helstu tekjuöflunarleið Pírata á Twitter í dag. Hann reiknaði sig niður á það að skekkjan væri enn meiri en Björn Leví segist nú telja og að hækkun efsta tekjuskattþreps um 3,75 prósentustig upp í 50 prósent, myndi einungis skila rúmum 4 milljörðum króna aukalega í ríkissjóð á ársgrundvelli, en ekki 34,8 milljörðum króna eins og Píratar sjálfir kynna á vef sínum. „Hátt í 9-falt ofmat,“ skrifaði hagfræðingurinn á Twitter.
Piratar halda áfram að fara fram með algjört rugl um tekjuskatt. Halda að hækkun efsta þreps um 3,75 prósentur skili 34,8 makr.
— Konráð S. Guðjónsson (@konradgudjons) September 16, 2021
Miðað við tekjur Íslendinga 2020 skilar slík hækkun 4,1 makr. Hátt í 9-falt ofmat.😬 pic.twitter.com/wrncHV0voO
Kjarninn hefur ráðist í eigin lauslegu útreikninga á þessari tillögu Pírata, miðað við ákveðnar forsendur, og gefa niðurstöðurnar til kynna að skekkjan sé jafnvel enn meiri en í útreikningum Konráðs.
Í fyrra nam meðaltal atvinnutekna efstu tíundarinnar á vinnumarkaði um 1,1 milljón á mánuði. Það leiðir af sér að skattstofninn fyrir hæsta tekjuskattþrepið var um 167 þúsund krónur á mánuði að meðaltali fyrir um það bil 20 þúsund manns. Samkvæmt þessu er skattstofninn í efsta þrepi því um 44 milljarðar á ári.
Hækkun um 3,75 prósentustig á skatti sem á þessa upphæð leggst myndi skila 1,6 milljörðum á ári aukalega í tekjur fyrir ríkissjóð. Vert er að taka fram að í þessum útreikningum er ekki tekið tillit til þess að aðrar tekjur en atvinnutekjur eru tekjuskattsskyldar, eins og lífeyrir og bætur.
Útgjaldatillögurnar
Píratar setja fram fjórar tillögur sem þeir segja að muni hafa mest áhrif á tekjur ríkissjóðs. Það er hækkun á persónuafslætti og útborgun ónýtts persónuafsláttar, hækkun frítekjumarks ellilífeyris til að draga úr skerðingum, hækkun frítekjumarks örorkubóta til þess að draga úr skerðingum og flutningur hluta virðisaukaskatts til sveitarfélaga. Þessir fjórir liðir, segja Píratar, munu lækka tekjur ríkissjóðs um 93,4 milljarða sem áður segir.
Þar af vegur hækkun á persónuafslætti langþyngst, en Píratar hafa lagt til að hækka persónuafsláttinn um 20 þúsund krónur. Þetta eitt og sé segja Píratar að muni lækka tekjur ríkissjóðs um sem nemur 70,9 milljörðum króna. Síðar meir sjá Píratar fyrir sér að persónuafsláttur sem ekki er nýttur verði útgreiðanlegur, en það er ekki með inni í þessum útreikningum.
Til viðbótar þessu segjast Píratar vilja draga úr skerðingum á ellilífeyri eldra fólks og segjast áætla að tillögur sínar muni lækka tekjur ríkissjóð um u.þ.b. 10 milljarða króna. Hækkun á frítekjumarki öryrkja segja Píratar að muni lækka tekjur ríkissjóðs um u.þ.b. 5,2 milljarða.
Auk þessa vilja Píratar að sveitarfélög fái hlut af þeim virðisaukaskatti sem verður til í sveitarfélaginu, til þess að geta betur staðið undir þeim verkefnum sem flutt hafa verið til þeirra á undanförnum árum. „Hægt er að fara nokkrar leiðir að þessu markmiði, en hér reiknum við með að á næsta ári myndi um 2% af tekjum ríkissjóðs vegna skatta á vörur og þjónustu renna til sveitarfélaganna. Þar sem gert er ráð fyrir að þær tekjur séu um 366.5 milljarðar í heildina þá mun þessi tillaga Pírata þýða að tekjur ríkissjóðs muni lækka um það sem nemur 7.3 milljörðum – en tekjur sveitarfélaga auðvitað aukast á móti,“ segir á vef Pírata.
Tekjuöflunin
Til þess að mæta þeim tillögum sem eru til tekjulækkunar hafa Píratar sett fram eftirfarandi aðgerðir til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, sem flokkurinn sagði að ættu að skila 83,7 milljörðum í auknar tekjur ríkissjóðs. Þó það sé reyndar að minnsta kosti 25 milljarða gat í þeim tillögum sem settar hafa verið fram.
- Hækkun miðþreps tekjuskatts úr 37,95% í 38%
- Hækkun efsta þreps tekjuskatts úr 46,25% í 50%
- Þrepaskipting fjármagnstekjuskatts og hækkun fjármagnstekjuskatts á ríkustu 10% fjármagnseigenda í 30%
- Bætt skattaeftirlit, átak gegn skattsvikum og peningaþvætti
- Hærra auðlindagjald á stærri útgerðir
- Orkunýtingargjöld á mengandi stóriðju
- Tímabundið hærri arðgreiðslur til ríkissjóðs úr Landsbankanum
Píratar segja að þær breytingar á tekjuskattsþrepunum sem þeir leggja til muni, sökum þess að persónuafsláttur verði einnig hækkaður, einungis hafa „tilfinnanleg áhrif á einstaklinga með hærri en 1.6 milljónir í mánaðartekjur og hjón/fólk í sambúð með meira en 2.2 milljónir í tekjur.“ Þeir áætla að breytingin á miðþrepinu muni skila 15 milljörðum í ríkissjóð og að breytingin á efsta þrepinu myndi skila um 34,8 milljörðum króna í ríkissjóð. Samtals yrðu því 49,8 milljarðar sóttir með hækkun tekjuskattsþrepa. En þetta er til endurskoðunar eins og fram hefur komið.
Flokkurinn telur síðan að breytingarnar á fjármagnstekjuskattinum, með hækkun efra þreps fjármagnstekjuskattsins upp í 30 prósent, muni skila 13,2 milljörðum aukalega í tekjur fyrir ríkissjóð.
Varðandi bætt skattaeftirlit segja Píratar að skýrslan um aflandseignir Íslendinga sem Bjarni Benediktsson „stakk ofan í skúffu“ fyrir síðustu kosningar hafi sýnt fram á að ríkissjóður verði árlega af á milli 4,6-15,5 milljörðum vegna skattsvika í gegnum aflandsfélög og að núverandi ríkisstjórn hafi auk þess „grafið undan eftirliti með svartri atvinnustarfsemi“. Píratar telja að með stórefldum rannsóknum og aðgerðum gegn skattsvikum sé „hæglega“ hægt að auka tekjur ríkissjóðs um 5 milljarða á ári.
Hvað auðlindagjöld varðar segja Píratar að raunhæft sé að tekjur af auðlindagjaldi í sjávarútvegi, sérstaklega með hækkun þess á stærri útgerðir, skili um 9,6 milljörðum aukalega til ríkissjóðs.
Orkunýtingargjöld af þeirri stóriðju sem mengar mest segja Píratar að geti skilað einum milljarði inn í ríkissjóð strax á næsta ári, en flokkurinn segist sjá fyrir sér að þessi skattlagning geti aukist þegar líður á kjörtímabilið og hana megi nota sem hvata til að fá mengandi iðnað til að draga úr útblæstri.
Píratar segja svo að rekstur Landsbankans hafi gengið mjög vel á þessu ári. „Við teljum því raunhæft að auka arðgreiðslur úr bankanum sem í dag er að fullu í eigu ríkisins,“ segja Píratar og áætla að Landsbankinn geti á næsta ári greitt út fimm milljarða króna eingreiðslu, ofan á reglulegar arðgreiðslur bankans.