Fjölmiðlanefnd bárust alls 28 umsóknir um rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla fyrir árið 2022, en umsóknarfrestur rann út á þriðjudaginn, 2. ágúst. Alls verða 384,3 milljónir króna til úthlutunar, að frádreginni þóknun fyrir störf nefndar sem sér um úthlutun stuðningsins og öðrum kostnaði við umsýsluna.
Á síðasta ári fengu 19 fjölmiðlar rekstrarstuðning úr ríkissjóði, en alls 23 fyrirtæki sóttu þá um styrkina.
Það eru því nokkur sem bætast við nú, en í svari frá Fjölmiðlanefnd segir að ekki sé víst að allir umsækjendur uppfylli að öllu leyti þau skilyrði sem sett eru fyrir úthlutun í lögum um fjölmiðla, t.d. um fjölda starfsmanna, útgáfutíðni eða annað.
„Úthlutunarnefnd leggur mat á það. Endanlegur fjöldi gildra umsókna liggur því ekki fyrir að svo stöddu,“ segir í svari frá Fjölmiðlanefnd.
Öll nítján félögin sem fengu rekstrarstuðning á síðasta ári sóttu á ný um styrki, en það eru Árvakur útgáfufélag Morgunblaðsins, Bændasamtök Íslands sem gefa út Bændablaðið, Elísa Guðrún ehf. sem er útgáfufélag Lifandi vísinda, Fótbolti.net, Fröken ehf. sem gefur út Grapevine, Kjarninn, Leturstofan sem er útgáfufélag Tíguls í Vestmannaeyjum, MD Reykjavík ehf. sem er útgáfufélag Iceland Review, Myllusetur sem gefur út Viðskiptablaðið, N4, Skessuhorn, Steinprent ehf. sem gefur út bæjarblaðið Jökul í Snæfellsbæ, Sýn hf. sem rekur Stöð 2, Vísi og fleiri fjölmiðla, Torg ehf. sem á Fréttablaðið, DV og Hringbraut, Tunnan prentþjónusta ehf. sem gefur út Helluna í Fjallabyggð og DB blaðið í Dalvíkurbyggð, Útgáfufélag Austurlands sem gefur út Austurfrétt og Austurgluggann, Útgáfufélagið ehf. sem gefur út Vikublaðið á Akureyri, Stundin og Víkurfréttir í Reykjanesbæ.
Að auki sækjast níu félög til viðbótar eftir rekstrarstuðningi nú. Það eru Birtíngur, sem gefur m.a. út Vikuna og Hús og híbýli, Eyjasýn ehf. sem gefur út Eyjafréttir, Hönnunarhúsið ehf. sem gefur út Fjarðarfréttir í Hafnarfirði, Nordic Times Media ehf. sem gefur út Land og sögu, Icelandic Times og Nordic Times, Nýprent ehf. útgáfufélag Feykis í Skagafirði, Prentmet Oddi ehf. sem er útgefandi Dagskrárinnar á Suðurlandi, Útvarp Saga, Snasabrún ehf., sem er útgáfufélag handboltavefmiðilsins handbolti.is og Sólartún ehf. sem rekur Mannlíf.
Heildarupphæð umsókna liggur ekki fyrir
Samkvæmt svari frá Fjölmiðlanefnd er vinna við yfirferð og skjölun umsókna að hefjast á skrifstofu stofnunarinnar og liggur heildarupphæð styrkumsókna því ekki ennþá fyrir, en fyrsti fundur úthlutunarnefndar eftir að umsóknarfresturinn rann út fer fram næsta þriðjudag.
Samkvæmt lögum um fjölmiðla getur rekstrarstuðningur að hámarki orðið 25 prósent af stuðningshæfum rekstrarkostnaði útgefanda. Sá kostnaður sem er stuðningshæfur er beinn launakostnaður starfsmanna á ritstjórn fjölmiðla og beinar verktakagreiðslur til þeirra aðila sem ráðnir eru til þess að afla og miðla fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni.
Í fyrra var tveimur umsóknum synjað og tveimur vísað frá, þar sem þær bárust of seint inn til Fjölmiðlanefndar. Stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtæki landsins, Árvakur, Sýn og Torg, fengu hvert um sig rúmlega 81,4 milljónir króna í opinberan rekstrarstuðning í fyrra, eða alls rúmar 244 milljónir af þeim tæpu 389 milljónum sem voru til úthlutunar þá.
Þessir fjölmiðlar/fjölmiðlaveitur hafa sótt um rekstrarstuðning:
- Árvakur hf.
- Birtíngur útgáfufélag ehf.
- Bændasamtök Íslands
- Elísa Guðrún ehf.
- Eyjasýn ehf.
- Fótbolti ehf.
- Fröken ehf.
- Hönnunarhúsið ehf.
- Kjarninn miðlar ehf.
- Leturstofan Vestmannaeyjum ehf.
- MD Reykjavík ehf.
- Myllusetur ehf.
- N4 ehf.
- Nordic Times Media ehf.
- Nýprent ehf.
- Prentmet Oddi ehf.
- SagaNet - Útvarp Saga ehf.
- Skessuhorn ehf.
- Snasabrún ehf.
- Sólartún ehf.
- Steinprent ehf.
- Sýn hf.
- Torg ehf.
- Tunnan prentþjónusta ehf.
- Útgáfufélag Austurlands ehf.
- Útgáfufélagið ehf.
- Útgáfufélagið Stundin ehf.
- Víkurfréttir ehf.