Frá því árið 2006 hafa 23 lögfræðingar, sem allir útskrifuðust frá Háskóla Íslands, verið ráðnir til starfa sem aðstoðarmenn dómara við Hæstarétt Íslands. Það er starf sem samkvæmt lögum ber að auglýsa nema sérstakar undanþágur gefi tilefni til annars, en það hefur þó ekki verið gert í einu einasta tilviki.
Þetta kemur fram í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra við skriflegri fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar þingmanns Pírata, sem birt var á vef Alþingis í dag. Þar er einnig greint frá því að dómsmálaráðuneytið hafi ritað dómstólasýslunni erindi og óskað eftir því að stofnunin áréttaði auglýsingaskyldu starfa aðstoðarmanna dómara við forstöðumenn dómstóla landsins.
Í svarinu sem Andrés Ingi fékk við fyrirspurn sinni, sem er síður en svo sú fyrsta sem hann leggur fram og tengist ráðningum í störf innan dómskerfisins, er dregið fram hversu lengi hver og einn einstaklingur sem ráðinn var sem aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt sinnti því starfi.
Starfandi árum saman
Heimild er fyrir því að ráða inn í þessa stöðu án auglýsingar ef um tímabundna ráðningu er að ræða, en þegar litið er yfir svör ráðuneytisins sést að allnokkur dæmi eru um að einstaklingar hafi sinnt þessum störfum árum saman eftir að hafa verið ráðnir inn án auglýsingar.
Þannig starfaði einn lögfræðingur sem aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt frá febrúar 2015 og þar til í janúar 2020 og annar sinnti starfanum frá september 2010 og fram í ágúst 2015 þrátt fyrir að starfið hafi ekki verið auglýst. Algengt er þó að starfinu sé sinnt til skemmri tíma og að fólk starfi sem aðstoðarmenn dómara við réttinn í um það bil eitt ár.
Töldu auglýsingar fæla frá hæfasta fólkið
Kjarninn sendi fyrirspurn til Hæstaréttar á vormánuðum og óskaði eftir skýringum á því af hverju störf aðstoðarmanna dómara við réttinn hefðu ekki verið auglýst á undanförnum árum.
Í svari Þorsteins A. Jónssonar skrifstofustjóra dómstólsins við fyrirspurn blaðamanns sagði að dómstóllinn legði áherslu á að sem hæfastir lögfræðingar réðust til starfa sem aðstoðarmenn hæstaréttardómara.
„Þar sem aðstoðarmenn eru í upphafi ráðnir tímabundið hefur þótt heppilegra að auglýsa ekki þar sem talið hefur verið að hæfustu umsækjendur myndu síður sækja um slík störf,“ sagði í svari skrifstofustjórans við fyrirspurn Kjarnans.
Starf auglýst í þessum mánuði
Athygli vakti fyrir örfáum dögum er auglýsingar um lausa stöðu aðstoðarmanns dómara við Hæstarétt birtust í dagblöðum landsins.
Andrés Ingi sagði á Twitter að mögulega væri þetta fyrsta auglýsingin af þessu tagi í sögunni.
„Svona geta fyrirspurnir ýtt við kerfinu!“ skrifaði þingmaðurinn.
Í vetur spurði ég hve oft hefði verið auglýst eftir aðstoðarmönnum hæstaréttardómara.
— Andrés Ingi (@andresingi) August 21, 2021
Svarið: Aldrei.
Í dag birtist auglýsing eftir aðstoðarmanni hæstaréttardómara í blöðunum. Kannski sú fyrsta í sögunni.
Svona geta fyrirspurnir ýtt við kerfinu! pic.twitter.com/LBhqFPtV51