Yfir 95 prósent þeirra sem sóttu um höfuðstólslækkun verðtryggðra íbúðarlána mun fá að vita hvort og þá hversu mikið þau munu fá um miðjan október, að sögn Tryggva Þór Herbertssonar, verkefnastjóra leiðréttingarinnar. Þau mál sem liggja ekki fyrir eru m.a. vegna þess að heimilissaga er snúinn, fólk hefur skilið og/eða gift sig aftur, endurfjármagnað lánin eða fært þau á milli lánastofnanna. Alls bárust um 69 þúsund umsóknir áður en frestur til að sækjast eftir skuldniðurfellingu rann út þann 1. september síðastliðinn. Á bakvið þær standa um 105 þúsund manns. Alls stendur til að leiðréttingin kosti 80 milljarða króna sem dreifist á fjögurra ára tímabil.
Afar fá heimili fá hámarksniðurfærslu
Í minnisblaði sem fjármála- og efnahagsráðuneytið gerði um áformin, og er dagsett 6. maí 2014, kom fram að „flest heimili sem skráð voru fyrir verðtryggðum lánum vegna kaupa á fasteignum til eigin nota á árunum 2008 og 2009 hafa notið einhverra úrræða á borð við sérstakar vaxtaniðurgreiðslur sem greiddar voru árin 2011 og 2012. Eins og fram kemur í frumvarpi til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána reiknast öll opinber úrræði sem heimili hafa þegar notið til frádráttar leiðréttingar. Af þessu leiðir að afar fá heimili eiga rétt á hámarksniðurfærslu sem er 4.m.kr.“. Í sama minnisblaði kemur fram að 70,1 prósent leiðréttingarinnar fer til heimila á höfuðborgarsvæðinu, 7,2 prósent til heimila á Suðurnesjum, 7,2 prósent til heimila á Norðurlandi eystra og 6,4 prósent til heimila á Suðurlandi. Þá fá heimili á Vesturlandi fjögur prósent hlutdeild í heildarleiðréttingunni. Afgangurinn, um fimm prósent, skiptist á milli heimila á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austurlandi. Samkvæmt minnisblaðinu mun 35 prósent upphæðarinnar sem deilt verður út fara til þeirra sem eru með meira en 100 prósent skuldsetningu miðað við fasteignamat. Fasteignamat er í flestum tilfellum töluvert lægra markaðsvirði fasteigna. Í eftirsóttustu hverfum Reykjavíkur er markaðsvirði lítilla og meðalstórra íbúða allt að 25-30 prósent hærra en fasteignamat þeirra.