Búið er að ákæra tvo menn fyrir morðið á á stjórnarandstæðingnum Boris Nemtsov í Moskvu þann 27. febrúar síðastliðinn. Mennirnir komu fyrir rétt í Moskvu í dag. Fram hefur komið í fjölmiðlum að annar mannanna, Zaur Dadayev, hafi viðurkennt aðild að morðinu. Hinn maðurinn heitir Anzor Gubashev, en báðir eru þeir sagðir frá Tsjetsjeníu.
Mennirnir tveir eru ákærðir fyrir að hafa bæði skipulagt morðið og myrt Nemtsov. Þeir voru handteknir í Ingushetia í Norður-Kákasushéraði, nálægt Tsjetsjeníu.
Þrír til viðbótar hafa verið handteknir og eru í haldi lögreglu vegna ætlaðra tengsla við morðið. Meðal annars er yngri bróðir Gubashev, Shagid Gubashev, í haldi lögreglu. Hinir tveir heita Ramzan Bakhayev og Tamerlan Eskerkhanov. Þeir eru allir sagðir hafa neitað aðild að málinu.
Sjötti maðurinn sem var grunaður um aðild að málinu sprengdi sig í loft upp þegar lögregla reyndi að nálgast hann í Tsjetsjeníu. Bislan Shavanov sprengdi sig í loft upp með handsprengju samkvæmt rússneskum fjölmiðlum þegar lögregla hafði umkringt húsið sem hann var í.
Einhverjir fjölmiðlar segja nú að í ákæru gegn mönnunum tveimur komi fram að talið sé að morðið hafi verið framið af hópi manna, og að glæpurinn hafi verið framinn í hagnaðarskyni, með öðrum orðum að mennirnir hafi verið leigumorðingjar.
Orðrómar eru komnir á kreik um að þessir menn séu látnir taka á sig sökina fyrir morðið, eða hafi verið ráðnir af stjórnvöldum. Rannsóknin hefur verið gagnrýnd mikið af stjórnarandstæðingum, sem telja að Pútín Rússlandsforseti beri ábyrgð á morðinu.