Franska lögreglan segir að bræðurnir Said Kouachi og Cherif Kouachi hafi framið ódæðisverkin í og við höfuðstöðvar skopmyndablaðsins Charlie Hebdo í gærmorgun.Tólf létust, þar á meðal ritstjóri blaðsins og þekktustu skopmyndateiknarar þess. Fjöldi manns hefur verið handtekinn í tengslum við leitina að mönnunum en þeir ganga sjálfir enn lausir. Árásin er mannskæðasta hryðjuverkaárás sem átt hefur sér stað í Frakklandi frá árinu 1961, en þá stóð Alsírska stríðið yfir.
Árásin í gær var ekki sú fyrsta sem Charlie Hebdo hafði orðið fyrir af hendi manna sem voru ósáttir með teikningar þess af spámanninum Múhammeð. Árið 2011 var sprengjum varpað á skrifstofur blaðsins.
Frönsku þjóðinni er mjög brugðið vegna árásarinnar á Charlie Hebdo. Tólf létust, tveir lögreglumenn og tíu starfsmenn blaðsins.
Annar mannanna sem leitað er að, Cherif Kouachi, er 32 ára. Hann hefur verið dæmdur fyrir aðild að hryðjuverkum vegna aðkomu sinnar að samkomum sem safnaði saman og sendi vígamenn til Írak. Said Kouachi er eldri bróðir hans. Þeir eru báðir sagðir vopnaðir og mjög hættulegir, að sögn frönsku lögreglunnar.
Alls voru sjö handteknir í nótt, samkvæmt frétt BBC. Allir hinir handteknu eru vinir eða hluti af fjölskyldu Kouachi-bræðranna.