Ensku bæirnir Gosforth og Huntington fá bráðlega hröðustu internet tengingu í Evrópu, eftir að fjarskiptafyrirtækið BT tilkynnti að ný tenging, sem býður upp á 500 megabæta hraða á sekúndu, verði prófuð á tveimur stöðum í sumar. Fréttamiðillinn Business Insider greinir frá málinu.
Til að setja nettenginguna í samhengi er meðal internethraði á Bretlandseyjum um 29 megabæt á sekúndu. Borgin Bolton er með hraðasta netið á Bretlandseyjum, eða tæplega 45 megabæt á sekúndu. Meðal nethraði á heimsvísu er um 22 megabæt á sekúndur en Singapúr er með hraðasta internetið að jafnaði í heiminum, eða 104 megabæt á sekúndu.
Í tilkynningu frá BT kemur fram að um 4.000 heimili og fyrirtæki í Huntington og Gosforth verði fyrst til að prófa nýju uppfærsluna, sem fram til þessa hefur bara verið prófuð hjá fjarskiptafyrirtækinu.
Ef allt gengur að óskum verður þjónustan í boði fyrir restina af Bretlandseyjum innan áratugar. Þjónustan hefur hlotið nafnið „G.fast.“
Til að átta sig á niðurhals-hraða, er hægt að glöggva sig á töflu sem tekin hefur verið saman um hversu langan tíma það tekur að sækja mismunandi skráargerðir miðað við allt að 100 megabæta hraða á sekúndu.