Sýrlenska þjóðin hefur verið á flótta undanfarin fjögur ár. Borgarastyrjöld í heimalandinu hefur hrakið um sjö milljónir á vergang og yfir 150.000 liggja í valnum. Vægðarleysið er algert, átökin skilja eftir sig sviðna jörð og haldi fram sem horfir verður landið rústir einar. Grunur er um að efnavopnum hafi verið beitt gegn almennum borgurum. Sögur af sveltu fólki, pyntingum og aftökum eru hræðilegar. Eins og á öðrum átakasvæðum beita andstæðingar nauðgunum kerfisbundið í þeim tilgangi að niðurlægja hver aðra og þær stúlkur og konur sem fyrir ofbeldinu verða eru hlutgerðar í orðsins fyllstu (og verstu) merkingu. Stríðandi fylkingar umkringja heilu hverfin og stráfella íbúana, sem enga undankomuleið eiga. Hjálparsamtök komast ekki að fólkinu sem innikróað er á átakasvæðunum. Starfsfólk, sjálfboðaliðar og sjúkrabílar Rauða hálfmánans eru skotmörk og alls hafa 34 verið myrtir við störf sín báðum megin víglínunnar síðan átökin hófust. Í Sýrlandi ríkir neyðarástand.
Lítið land, stórt vandamál
Líbanon er lítið land fyrir botni Miðjarðarhafs, umlukið Sýrlandi með landamæri í suðri að Ísrael/Palestínu. Ekki þarf að hafa um það mörg orð hve mikilvægt og erfitt það er fyrir svo fámenna þjóð (4,5 milljónir) að halda frið og hlutleysi með svo öfluga nágranna. Þrátt fyrir að vera langminnst nágrannalanda Sýrlands, aðeins um 10.000 km2 að stærð (Ísland er um 103.000 km2), hýsir það stærstan hluta þeirra sem flúið hafa átökin. Áætla má að nú þegar séu um 1,5 milljónir Sýrlendinga í Líbanon og ekkert lát virðast vera á fjölgun þeirra. Sameinuðu þjóðirnar skrá að meðaltali tvo nýja flóttamenn inn í landið á hverri mínútu. Nú þegar eru sýrlenskir flóttamenn fjórðungur íbúa landsins; hlutfall sem á sér enga hliðstæðu.
Þetta er örstutt brot úr fréttaskýringu Kjarnans um ástandið í Líbanon. Lestu hann í heild sinni hér.