17 prósent öryrkja hafa mjög miklar áhyggjur af kostnaði við rekstur húsnæðis og 21 prósent hafa frekar miklar áhyggjur. 58 prósent þeirra sem búa í eigin húsnæði en 84 prósent þeirra sem búa í leiguhúsnæði eða við annars konar búsetuskilyrði segja húsaleigu eða afborganir af húsnæðislánum vera þunga eða nokkra byrði.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum könnunar sem ÖBÍ réttindasamtök létu gera á stöðu fatlaðs fólks á húsnæðismarkaði.
Tólf prósent öryrkja greiða meira en 75 prósent útborgaðra launa í rekstur húsnæðis. 25 prósent greiða á milli 51 prósent og 75 prósent. Hlutfall húsaleigu eða afborgana af húsnæðislánum hefur aukist mikið hjá 20 prósent og nokkuð hjá 45 prósent.
Öryrkjabandalag Íslands kynnti niðurstöður könnunarinnar, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir bandalagið, í gær en áður hafði ÖBÍ greint frá því að hluti öryrkja greiðir yfir 75 prósent ráðstöfunartekna sinna í húsnæðiskostnað.
Í umsögn ÖBÍ um frumvarp þingmanna Flokks fólksins um breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu og húsaleigum segir að ætla megi að tekjulágt fólk velji frekar að taka verðtryggð húsnæðislán vegna lægri afborgana í því vaxtaumhverfi sem ríkt hafi á húsnæðismarkaði, sérstaklega síðastliðið ár. „Verðbólgan er mjög há nú um stundir og alls óvíst hvort hún komi til með að lækka, hækka eða standa í stað næstu misseri. Greiðslubyrði lántaka hefur þyngst verulega og þá sérstaklega hjá þeim hóp sem tók óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum á þeim tíma sem stjórnvöld töluðu á þann hátt að nú væri lávaxtarskeið hafið. Þær forsendur sem þessir lántakar settu sér eru algjörlega brostnar og eru mörg heimili með alltof háa greiðslubyrði.“
Staða öryrkja á leigumarkaði verri en öryrkja í eigin húsnæði
Könnunin leiðir í ljós að staða fólks sem býr í leiguhúsnæði er almennt verri. Það greiðir hærra hlutfall tekna í rekstur, hefur meiri áhyggjur af kostnaðinum og er líklegra til þess að lenda í vanskilum.
Í könnuninni kemur fram að fatlað fólk er mun líklegra til að vera á leigumarkaði og borga stærri hluta tekna sinna í húsnæðiskostnað en aðrir á Íslandi.
58 prósent öryrkja búa í eigin húsnæði samanborið við 74 prósent allra fullorðinna. 29 prósent öryrkja eru á leigumarkaði, samanborið við 13 prósent allra fullorðinna hér á landi.
Þeir örorkulífeyristakar sem eru á leigumarkaði sögðu almennt erfitt að fá leigt húsnæði á almennum markaði og greiða stóran hluta tekna sinna í sinn hlut af rekstri húsnæðisins.
49 prósent svarenda sögðu það hafa verið mjög erfitt að fá leigt húsnæði á almennum leigumarkaði en aðeins sjö prósent svarenda sögðu það hafa verið mjög auðvelt.
Helmingur þeirra sem það hafði leitað að húsnæði til leigu sagði að mjög erfitt hafi verið að fá leigt húsnæði á almennum leigumarkaði og 17 prósent sögðu það hafa verið frekar erfitt. Alls höfðu 15 prósent svarenda einhvern tíma búið í félagslegu húsnæði á vegum sveitarfélaga. Af þeim sem bjuggu í eða höfðu einhvern tíma búið í félagslegu húsnæði á vegum sveitarfélaga hafði 41 prósent verið á biðlista í þrjú ár eða lengur áður en húsnæðið fékkst.
28 prósent hafa lent í vanskilum og 10 prósent tekið smálán
Líkt og fyrr segir hafa 38 prósent öryrkja á leigumarkaði mjög eða frekar miklar áhyggjur af kostnaðinum við rekstur húsnæðis, sem er tvöfalt meira en fullorðið fólk almennt.
Þau sem voru með 75 prósent örorkumat voru líklegri til að segja rekstur húsnæðis valda sér áhyggjum en þau sem voru með örorkustyrk eða endurhæfingarlífeyri. Þá voru þau sem bjuggu í eigin húsnæði mun ólíklegri til að segja kostnað við rekstur húsnæðis valda sér áhyggjum en þau sem bjuggu í leiguhúsnæði eða við annars konar búsetuskilyrði.
28 prósent öryrkja sem hafa greitt leigu eða húsnæðislán síðustu tíu ár hafa lent í vanskilum með leigu eða afborgun húsnæðislána. Einum af hverjum tíu hafði einhvern tíma verið sagt upp leiguhúsnæði eða misst íbúðarhúsnæði vegna erfiðleika við að greiða leigu eða afborganir.
Þá höfðu tíu prósent öryrkja tekið smálán, það er lán sem tekin eru í gegnum smálánafyrirtæki sem lána ákveðnar upphæðir með skjótum hætti gegn háum vöxtum, á síðustu 12 mánuðum.
Hlutfall húsaleigu eða afborgana af húsnæðislánum hefur aukist nokkuð eða mikið hjá 65 prósent öryrkja síðustu fimm ár. 25 prósent svarenda sögðu útgjöldin hafa nokkurn veginn staðið í stað, en tíu prósent segja útgjöldin hafa lækkað nokkuð eða mikið.
Niðurstöður könnunarinnar leiða í ljós að byrði vegna húsaleigu eða afborgana af húsnæðislánum er þung. 64 prósent öryrkja segja byrðina þunga eða nokkra. 20 prósent segja byrgði vegna húsaleigu eða afborgana húsnæðislána litla en 16 prósent segja byrðina enga.
Könnunin var lögð fyrir almennt úrtak fólks á aldrinum 18 til 67 ára. Í upphafi könnunarinnar var fólk spurt hvort það væri með 75% örorkumat hjá Tryggingastofnun ríkisins, örorkustyrk, endurhæfingarlífeyri eða ekkert af þessu. Aðrar spurningar könnunarinnar voru í framhaldi lagðar fyrir fólk sem var með örorkumat eða endurhæfingarlífeyri.