Tvíhöfði, í umsjón Jóns Gnarr og Sigurjóns Kjartanssonar, mun hefja göngu sína í hlaðvarpi Kjarnans miðvikudaginn 5. nóvember næstkomandi. Samkomulag þess efnis var handsalað nýverið. Um verður að ræða vikulega hlaðvarpsþætti sem hægt verður að nálgast á vefsíðu Kjarnans eða með því að gerast áskrifandi í gegnum snjalltæki. Það er gert með því að leita að "Kjarninn" í öllum hlaðvarpsöppum. Nánari upplýsingar verður hægt að nálgast á www.kjarninn.is á sama tíma og fyrsti þátturinn fer í loftið.
"Þjóðin hefur sett Tvíhöfða í fyrsta sæti. Nú er komið að þjóðinni að sitja framí!"
Þekktir dagskrárliðir á borð við „Smásálina“ sem hlustendur Tvíhöfða kannast við verða fyrirferðamiklir í þáttunum. Auk þess verður boðið upp á nýjungar sem hafa verið að bræðast í höfði Tvíhöfða frá því að tvíeykið var síðast með reglulega útvarpsþætti.
Sigurjón Kjartansson og Jón Gnarr eru Tvíhöfði.
Tvíhöfði fyrir málsmetandi menn og kellingar útí bæ
Jón Gnarr, annar helmingur Tvíhöfða, segir að það ríki mikil eftirvænting og barnsleg gleði hjá honum og Sigurjóni vegna þessarra tímamóta. „Tvíhöfði hefur öðlast sess með þjóðinni. Þjóðin hefur sett Tvíhöfða í fyrsta sæti. Nú er komið að þjóðinni að sitja framí! Margmiðlunarþrekvirkið Tvíhöfði er þjóðin og fyrir þjóðina. Við ætlum að hlusta á fólkið í landinu. Okkur er alveg sama hvort þú ert hipster í Reykjavík eða einhver lúði út á landi. Fyrir Tvíhöfða eru allir jafnir ef þeir eru Íslendingar. Tvíhöfði spyr ekki hvort þú sért einhver málsmetandi maður eða bara einhver kelling útí bæ. Ef þú hefur eitthvað að segja þá er Tvíhöfði þín rödd.“
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, er að vonum ákafalega ánægður með að Tvíhöfði hafi valið að snúa aftur, í samstarfi við Kjarnann. „Kjarninn ætlar að vera leiðandi í hlaðvarpi á Íslandi. Við viljum bjóða upp á það sem er best. Og það er ekkert betra en Tvíhöfði.“