Allir fjórir einstaklingarnir sem Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefndi í upphafi þessa árs til setu í landskjörstjórn sem aðalmenn og varamenn hafa þurft að víkja úr nefndinni fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar, vegna vanhæfis.
Þau þurftu að víkja vegna tengsla við einhverja af þeim þúsundum frambjóðenda sem sitja á framboðslistum hér og þar um landið, á grundvelli 18. greinar nýrra kosningalaga sem tóku gildi um áramót. Búið er að skipa tvo nýja fulltrúa til setu í landskjörstjórn fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í þeirra stað.
Þetta kemur fram í svari frá starfsmanni landskjörstjórnar við fyrirspurn Kjarnans, en ný landskjörstjórn var skipuð frá og með 1. janúar 2022 í kjölfar gildistöku nýrra kosningalaga. Fimm manns sitja í landskjörstjórninni, sem er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem hefur yfirumsjón með framkvæmd kosninga og annast framkvæmd kosningalaganna.
Bæði aðalmennirnir og varamennirnir vanhæfir
Í svarinu frá landskjörstjórn segir að könnun fulltrúa á hæfi þeirra eftir að framboðslistar komu fram fyrir komandi kosningar hafi leitt til þess að báðir fulltrúarnir sem Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefndi til setu í nefndinni í janúar, þau Ebba Schram og Magnús Karel Hannesson, hafi verið vanhæf til þess að sitja í landskjörstjórn í þessum kosningum.
Þá hafi verið leitað til varamanna, þeirra Elínar Óskar Helgadóttur og Ágústar Sigurðar Óskarssonar, en er þau könnuðu hæfi sitt kom í ljós að bæði teldust einnig vanhæf til setu í landskjörstjórn í þessum sveitarstjórnarkosningum.
Landskjörstjórn fór þess á leit við dómsmálaráðuneytið í kjölfarið að það hlutaðist til um skipun nýrra fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga í landskjörstjórn fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og frá því hefur verið gengið, sem áður segir.
Vandræðaákvæði í nýjum kosningalögum
Ný kosningalög eru með strangari reglum um hæfi kjörstjórnarfólks en þau gömlu, en samkvæmt 18. grein laganna skulu fulltrúar víkja úr kjörstjórnum og landskjörstjórn „ef einstaklingur er í kjöri sem er eða hefur verið maki hans, sambúðarmaki, fyrrverandi sambúðarmaki eða skyldur eða mægður honum í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur honum með sama hætti vegna ættleiðingar.“
Þetta hefur valdið töluverðum vandkvæðum í kjörstjörnum hér og þar á landinu, þar sem reynt kjörstjórnarfólk hefur þurft að víkja sökum tengsla við fólk sem er að bjóða sig fram í þeirra sveitarfélagi.
Á Akranesi þurftu til dæmis allir að víkja úr kjörstjórninni og í Reykjavík ákvað einn frambjóðandi sem var neðarlega á lista Pírata að víkja af framboðslistanum til þess að frændi hans, sem situr í kjörstjórn borgarinnar, þyrfti ekki að víkja þaðan.